131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Stjórnarskipunarlög.

50. mál
[18:35]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vil helst ekki deila mikið við Pétur Blöndal um það hvernig sá forseti Alþingis sem hann er að leggja til er samanburðarhæfur við menn í öðrum löndum. Ég tel einfaldlega fráleitt að bera þann forseta sem hv. þm. Pétur Blöndal er að búa til saman við forseta þeirra ríkja sem ég nefndi hér eða þá aðra sem liggja óbættir hjá garði í ræðu minni.

Um fyrri hluta athugasemdar hv. þingmanns verður einfaldlega að segja það á þeim litla tíma sem hér er til umráða að ég tel að stjórnskipulegt hlutverk forseta Íslands, m.a. í málskotsréttinum en ekki í honum einum, sé fullkomlega sambærilegt við hlutverk forseta þeirra landa sem ég hef hér talið. Það er auðvitað mismunur frá landi til lands. Sums staðar er það með nokkuð öðrum hætti, annars staðar líkt, sums staðar er það meira á tiltekinn kvarða, annars staðar minna. En það er yfirleitt alls staðar þannig að forseti er í fyrsta lagi kjörinn og ekki úr hópi þingmanna á þingi heldur kjörinn af þinginu, hinum kjörnu fulltrúum í fimm ríkjum vissulega, og annars staðar og víðar í þjóðkjöri, og hann er kjörinn til þess að vera sameiningarpunktur og hafa hlutverk í hinni þrískiptu grein ríkisvaldsins. Ef hann er það ekki, eins og mér skilst að hv. þm. Pétur Blöndal túlki það, þá sagði ég m.a. í upphafi ræðu minnar hér: Ef einhver hefur það hugmyndaflug að búa til forseta í ríki sem ekki hefði neitt stjórnskipulegt hlutverk þá ættum við að leggja hann með einhverjum hætti niður.

En það hefur ekkert ríki látið sér detta það í hug og það hefur enginn í öllum heiminum látið sér detta það í hug nema hv. þm. Pétri Blöndal með þessu frumvarpi sem hann er núna að flytja.