131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Stjórnarskipunarlög.

50. mál
[18:39]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég er á ýmsan hátt ósammála hv. þingmanni og túlka það öðruvísi sem hann er að túlka hér. Það sem er þó meginkjarninn í ræðu minni, og það er engin tilviljun, er að Íslendingar með sína hefð og sína tæplega 300 þúsund íbúa búa við kerfi sem er mjög líkt því sem þessi 11 ríki sem ég kannaði hafa valið sér. Nú eru þessi ríki með ýmsum hætti og flest hafa þau búið við vondar aðstæður undanfarna áratugi, sum nokkuð marga, þó er það ekki algilt og ýmis þeirra hafa ákveðna lýðræðishefð og ákveðna sögulega hefð mjög langt aftur í tímann. Um stærð eru þau líka misjöfn. Í Póllandi eru tæplega 40 milljónir íbúa. En það eru líka til fámenn ríki sem væru í stærri ríkjum talin nokkurn veginn samsvara okkur, Króatar eru t.d. jafnmargir Norðmönnum, 4,5 milljónir, Slóvenar eru 2 milljónir, Eistar 1,6 milljónir, hygg ég, og jafnvel til enn þá fámennari, eru sem sé smáríki á heimsmælikvarðann eins og við. Engu þessara ríkja hefur dottið í hug að láta kjósa forseta á þinginu sem síðan væri forseti landsins. Maður spyr: Er það vegna þess að þingmenn þar, alþýða í þessum ríkjum og spekingar, lögspekingar og stjórnspekingar, séu svona vitlausir? Er það þannig að þeim hafi ekki dottið í hug það sem okkar mikla snillingi, hv. þm. Pétri Blöndal, dettur í hug og fleirum af hans tagi? Eða þá að þeir séu að reyna að monta sig af forsetum sínum eða með einhverjum hætti að herma eftir öðrum ríkjum og detti ekki í hug þetta snjallræði?

Nei, forseti, ég hallast að þeirri kenningu að það sé ekki svo heldur hafi þessi ríki ósköp einfaldlega farið hina eðlilegu leið og m.a. fylgt í því íslensku stjórnskipuninni þar sem forsetinn hefur ákveðið hlutverk í (Forseti hringir.) stjórnskipuninni og í hinni þríeinu grein ríkisvaldsins.