131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Stjórnarskipunarlög.

50. mál
[18:54]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður fer mikinn og hann hefur greinilega ekki lesið greinargerðina vegna þess að í henni eru aðalrökin fyrir því að leggja forsetaembættið niður þau að nánast öll ákvæði um forsetaembættið eru tóm. Þau segja ekki rétt frá. Þau segja eitthvað allt annað heldur en raunin er þegar farið er að skoða málin ofan í kjölinn. Það er t.d. sagt að forseti lýðveldisins geri samninga við erlend ríki. Hann gerir enga samninga við erlend ríki. Það er sagt að forseti lýðveldisins skipi ríkisstjórn og ákveði fjölda ráðherra. Hann gerir það ekki. Þetta er ein aðalástæðan fyrir því að hér er lagt til að embættið verði lagt niður. Hafi hv. þingmaður ekki skilið það þá hefur hann ekki lesið greinargerðina eða þá ekki með réttu hugarfari.

Það hvort hér hafi verið stórstyrjaldir og ógn þá er svo auðvitað ekki. Það var nefnt í umræðunni áðan að í Bretlandi er engin stjórnarskrá og gengur bara þokkalega. Það er spurning hvort nokkur þörf sé fyrir stjórnarskrá yfirleitt. En hún var sett á á sínum tíma eftir heimspekilega umræðu til að verja borgarana. Hv. þingmaður gerir lítið úr því að ég sagði að nefndin sem er að fjalla um þetta ætti að fá til sín fólk með greindarvísitöluna 90. Hann gerir lítið úr því. En þetta fólk er til og þetta fólk á að lesa stjórnarskrána og þetta fólk á stjórnarskráin að vernda. Hvernig getur hún verndað þetta fólk ef það skilur hana ekki rétt eða þarf alltaf lögfræðing eins og hv. þingmann til að lesa hana fyrir sig?

Hvers vegna var þetta ekki gert í fyrra? Ég hef lagt til að forseti lýðveldisins borgi skatta eins og annað fólk og fékk það samþykkt fyrir mörgum árum. Ég hef alltaf haft illan bifur á því að hér sé til fólk einhvern veginn æðra öðru fólki. Rökin sem við færum fram fyrir þessu máli eru aðallega þau að völd forseta lýðveldisins eru að mestu leyti formleg.