131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Stjórnarskipunarlög.

50. mál
[18:59]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er gjarnan svo þegar menn eru komnir í þrot með rök að þeir fara að gefa ræðum einkunnir. Mín ræða var víst innihaldslaus. Það er þá bara þannig.

Hv. þingmaður sagði að stjórnarskráin hafi ekki valdið neinum vandkvæðum. Er það svo? Ég man ekki betur en að síðastliðið sumar hafi komið þrjú lögfræðiálit frá þremur hálærðum lögfræðingum og hópum lögfræðinga. Hver var með sitt álit, hver með sína skoðun og allar sýndust mér þær réttar. Ég las þær allar og mér sýndust þær allar vera réttar. Svona er nú stjórnarskráin gagnsæ og skýr og svona verndar hún borgarana aldeilis. Ef hálærðir prófessorar í lögfræði geta komist að þremur mismunandi niðurstöðum hvernig á þá borgarinn sem ætlar að leita sér verndar og trausts í stjórnarskránni að finna réttan skilning? Svo getur vel verið að engin þörf sé á stjórnarskrá yfirleitt.

En af hverju legg ég til að forsetaembættið verði lagt niður? Vegna þess að ef maður skoðar stjórnarskrána og tekur út öll tómu ákvæðin, frú forseti, um að hann geri samninga við erlend ríki, hann myndi ríkisstjórnir og hann geri þetta og hann geri hitt, ef maður tekur það allt burtu þá er ekkert eftir nema málskotsrétturinn til þjóðarinnar og ég legg til að þjóðin hafi hann sjálf.