131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Athugasemd.

[13:34]

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hér er reist óskaplega sérkennileg krafa. Nú er málið þannig að það er á forræði Alþingis. Þetta mál var flutt og því var vísað til þingnefndar fyrir áramótin og hefur verið þar til meðhöndlunar af hálfu þingsins og nú er það á dagskrá og verður ýtt úr vör af formanni menntamálanefndar. Auðvitað er okkur ekkert að vanbúnaði að ræða málin.

Svo er það þannig eins og hér hefur komið fram að hæstv. menntamálaráðherra hefur lögmæt forföll og í hennar stað er starfandi menntamálaráðherra hæstv. ráðherra Sigríður Anna Þórðardóttir. Það er auðvitað fráleitt að ætla að tefja þetta mál með einhverjum hundakúnstum eins og hv. þingmaður var að leggja til vegna þess að hæstv. menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sé ekki til staðar hér í dag. Það er starfandi menntamálaráðherra. Þetta mál er á forræði þingsins og það er auðvitað eðlilegt að við ræðum það.

Ég vil líka leyfa mér að minna á að þegar þessi mál voru til umfjöllunar fyrir áramótin var gengið út frá því og um það rætt að það yrði klárað mjög fljótt eftir áramótin. Nú er kominn miður febrúar. Við höfum haft þetta mál til meðhöndlunar í nefndum. Það hefur verið ákaflega vel brugðist við öllum óskum um að senda það til umsagnar og kalla eftir álitum. Málið er auðvitað fullbúið af hálfu nefndarinnar og ég skil ekki þann hugsunarhátt að ekki sé hægt að ræða málið sem er á forræði Alþingis þó að hæstv. menntamálaráðherra sé ekki til staðar þegar það liggur fyrir að þingið er auðvitað í stakk búið til að ræða þetta mál og starfandi hæstv. menntamálaráðherra er hér til staðar.