131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Athugasemd.

[13:38]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Ég hef ekki leitt hugann að því sérstaklega hvað varðar vertíðina sem heild nema þá hvað varðar afleiðingar af brunanum í Grindavík, enda held ég að það sé ekki fyrirséð hvernig vertíðin fer. Eins er líka það að m.a. vegna veðurs hefur veiðin ekki verið eins og skyldi. Ef eitthvað er að marka skipstjórnarmennina virðast þeir fá minna í hverju kasti nú en þeir eiga að venjast, jafnvel á þessum tíma. Þó að vertíð núna sé að mörgu leyti hefðbundin gæti þróunin orðið eitthvað öðruvísi en við höfum áður þekkt á seinni hluta vertíðarinnar.

Svo vitum við ekki fyrr en í blálokin hversu lengi vertíðin endist. Hins vegar má segja að einhverjar aðgerðir gætu komið til greina, og þá í líkingu við það sem menn eru að velta fyrir sér vegna verksmiðjunnar í Grindavík ef staðan væri sú að veiði væri góð og loðnan komin nálægt hrygningu og þar af leiðandi fyrirsjáanlega stuttur tími til loka til að nýta verksmiðjuna sem best. Þá er ég að tala um flutning á afla til þeirra verksmiðja sem fjærst liggja miðunum þannig að veiðiskipin geti nýst betur við veiðarnar.

Flöskuhálsinn í þessum veiðum þegar mest gengur á er ekki skipin eða flotinn, heldur eru það vinnslurnar, hvernig þær nýtast. Það er kannski ástæðan fyrir því að við hér á landi erum með eins margar verksmiðjur og raun ber vitni.