131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Athugasemd.

[13:46]

Hjálmar Árnason (F):

Herra forseti. Hér eru tvö mál til umræðu, annars vegar áhyggjur manna af því hvort og þá hvernig loðnan muni veiðast, og deili ég þeim áhyggjum, en ég kvaddi mér þó hljóðs undir liðnum um störf þingsins vegna þeirrar kröfu hv. þingmanna Samfylkingarinnar að fresta hér umræðu um frumvarp um afnám laga um Tækniháskóla Íslands sem hefur verið til vinnslu innan þingsins.

Eitt er pólitískt efni ákveðinna mála og annað er svo hver ber hina pólitísku ábyrgð á málinu eftir því hvar það er statt í vinnslu hverju sinni. Það á ekki að þurfa að rifja upp á þessum vettvangi að hæstv. ráðherrar undirbúa mál og fylgja þeim eftir í 1. umr. Þegar þeirri umræðu lýkur með atkvæðagreiðslu, gjarnan með því að málum er vísað til nefndar, hefur framkvæmdarvaldið sleppt hendi af málinu og Alþingi (Gripið fram í.) tekið við þeirri ábyrgð. (Gripið fram í.) Eitt er umræða og annað er hin pólitísku álitamál sem hafa fengið — og þetta mál einmitt eins og flest önnur — mikla pólitíska umræðu innan menntamálanefndarinnar.

Ég hlýt að halda því fram að þegar menn tala eins og hér hefur verið gert veiki það í rauninni stöðu þingsins. Öðrum þræði tala menn um mikil áhrif framkvæmdarvaldsins og lítil áhrif þingsins (Gripið fram í.) en þegar síðan Alþingi er komið með mál í hendur kvarta sömu menn undan því að framkvæmdarvaldið skuli ekki vera viðstatt. Að sjálfsögðu hefur þingið málið núna og það er alveg fullbúið til þess að fara í pólitíska umræðu á vegum þingsins enda er þetta mál í höndum þingsins. (Gripið fram í.)

Þar að auki, herra forseti, er rétt að minna á það að í þessu skólasamfélagi sem um ræðir eru 2.500 manns sem bíða eftir ákvörðun. Þeirri óvissu þarf að eyða. Málið er á ábyrgð þingsins núna en ekki framkvæmdarvaldsins.