131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Athugasemd.

[13:48]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Vissulega er málið á forræði þingsins og hægt að ræða það og afgreiða héðan frá þinginu. Það er hins vegar á ábyrgð þess fagráðherra sem hrinti því úr vör, þetta er hugmynd og framkvæmd hæstv. menntamálaráðherra og var fyrst kynnt í Morgunblaðinu 24. ágúst á síðasta ári. Málið var svo einungis til umræðu í fjölmiðlum fram eftir öllu hausti þar til það kom inn í þingið til 1. umr. í desember.

Hér er um að ræða, eins og fram hefur komið, algjöra grundvallarbreytingu á íslensku menntakerfi, fordæmalaust rekstrarform á háskólastigi þar sem háskólinn á að falla inn í einkahlutafélagsform en ekki sjálfseignarstofnunarform eins og þekkt er á háskólastiginu hjá einkareknum skólum. Við umræðu um slíka grundvallarbreytingu á menntakerfinu hlýtur að vera eðlilegt að farið sé fram á það með vinsamlegum hætti við hæstv. forseta að málinu sé frestað þangað til hæstv. menntamálaráðherra getur verið viðstödd umræðuna, tekið þátt í hinni pólitísku umræðu og brugðist við breytingum á málinu út úr hv. menntamálanefnd. Þar fór fram ágætisvinna og mörg sjónarmið og viðhorf komu fram, bæði jákvæð og neikvæð. Mörg þeirra veiktu verulega málið, önnur vörpuðu skýrara ljósi á það.

Það er mjög eðlilegt að hæstv. menntamálaráðherra taki þátt í lokaafgreiðslu á máli sem lýtur að grundvallarbreytingu á íslensku menntakerfi. Út á það gengur ósk okkar til virðulegs forseta um að málinu verði einungis frestað þar til hæstv. ráðherra getur verið við umræðuna. Það getur varla verið spurning nema um nokkra daga og því er ekki um að ræða langa frestun sem kemur málinu í neitt uppnám að öðru leyti.