131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Athugasemd.

[13:50]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það væri ekki úr vegi að hæstv. forsetaembættið tæki upp þann sið sem var í útvarpinu áður að hafa eins konar fréttir af ráðherrum, hvar þeir væru hverju sinni svipað og skipafréttirnar voru áður. „Þarna kom Súlan og beygði yfir bæinn. Botnía fer í kvöld.“ Svoleiðis hefur þetta verið undanfarna daga hér, við höfum verið að frétta af hinum ýmsustu ráðherrum þar sem þeir setja sig niður á fundi hingað og þangað um landið á meðan fundir standa í hv. Alþingi. Það er engin breyting á þessu núna. Hér á að fara að ræða mál hæstv. menntamálaráðherra og þá er hún farin til útlanda.

Mér finnst ósköp eðlilegt að gerð sé um það krafa að hæstv. ráðherra sé hér við og það þrátt fyrir að hv. þm. Hjálmar Árnason hafi kvartað yfir því að menn væru að gefa það í skyn að framkvæmdarvaldið hefði of mikil völd yfir þinginu. Það er eðlilegt að hann kvarti yfir því, hv. þingmaður, því að hann hefur æðioft risið upp gegn framkvæmdarvaldinu og gjörbreytt þingmálum þegar þau hafa komið inn í þingið vegna þess að hann hefur viljað hafa eitthvað svolítið öðruvísi, eða hvað? Auðvitað er það ekki svo. Allir vita að framkvæmdarvaldið hefur býsna mikil völd í þinginu og það er ástæða til að tala um þá hluti hér. Þess vegna er líka mjög eðlilegt að gerð sé krafa um það að hingað komi hæstv. ráðherra og taki þessa umræðu til enda úr því að hún hefur unnið slaginn og fengið í lið með sér þá sem eiga að rétta upp hendurnar í sölum Alþingis.