131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Vöxtur og viðgangur þorsks í Breiðafirði.

[14:01]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Það er ágætt að ræða þetta málefni hér þótt kannski hefði mátt finna markvissara nafn á umræðuna miðað við framsöguræðu upphafsmanns hennar.

Hins vegar er það að segja um þorkstofninn í Breiðafirði að hann hefur það nokkuð gott, sérstaklega borið saman við þorskinn annars staðar. Frá mælingunum í haust virðist þorskur á sama aldri, fjögurra ára þorskur, vera þyngri að meðaltali í Breiðafirðinum en hann er að jafnaði annars staðar.

Hins vegar er um ungan fisk að ræða í Breiðafirðinum og þess vegna fellur hann, eins og kom fram í haust, undir 25% mörkin miðað við 55 sentímetra. Það gerði hann á öllum þeim mælistöðvum sem mældar voru í mjög víðtækri mælingu sem þar fór fram þannig að það þarf ekkert að efast um réttmæti þeirrar lokunar.

Hins vegar er dálítið erfitt að ræða þessi mál þegar verið er að vitna í vísindamenn eins og Jón Kristjánsson. Hann kynnti mál sitt á fundinum hjá Snæfelli sem hv. þingmaður vitnaði til og það verður að segjast eins og er að vinnubrögð hans eru mjög gagnrýnisverð, sérstaklega sýnatakan.

Sýnatakan er ekki vegin, sýnin eru ekki tekin miðað við rétta dreifingu á aflanum og það er ekki um tilviljunarúrtak að ræða þannig að undirmálsfiskur er miklum mun stærra hlutfall í sýninu hjá vísindamanninum en hann er úr vegnum tilviljunarkenndum sýnum sem tekin eru. Það þýðir að mæling á vaxtarhraða er óhjákvæmilega skekkt vegna þessa mikla magns af minni fiski sem þar er, ekki bara út af þyngdinni heldur vegna þess að það eru miklu fleiri litlir fiskar í þyngdinni en ef þeir væru stærri.

Þessi mynd er af miklu stærra úrtaki en var þarna í Breiðafirðinum sem þýðir að vaxtarkúrfa sem búið er að yfirfæra yfir á stærra úrtak, vaxtarkúrfa sem eðlilega væri svona í vegnu tilviljunarúrtaki — þegar undirmálið er tekið inn óvegið verður hún svona og þá fær vísindamaðurinn ranga niðurstöðu um það hvernig vaxtarhraða fisksins er farið. Þess vegna er mjög erfitt að ræða út frá gögnum sem þannig eru fengin.

Ég fullyrði að sýnatakan er grundvallaratriði í þessum vísindum sem öðrum vísindum sem byggja á mælingum. Það þekki ég mjög vel vegna minnar eigin fræðigreinar sem dýralæknis og fisksjúkdómafræðings sem byggir á því að finna tiltekið sýkingarmagn í popúlasjónum sem um er að ræða. Það byggir á nákvæmlega sömu stærðfræðinni og tölfræðinni hvort sem um er að ræða fiskifræðina eða faraldursfræðilegar rannsóknir.

Það hefur auðvitað komið fram í umræðunni hvað eftir annað að hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni og reyndar öðrum félögum hans í flokki frjálslyndra er mjög ósýnt um það að mæla. Þeim er mjög ósýnt um það að nota stærðfræði og reikna eitthvað út og nota tölfræðilegar aðferðir. Það kemur þá kannski fram í þessu sem hér er um að ræða.

Það sem við höfum verið að tala um hérna nokkrum sinnum í vetur er það að þorskstofninn hjá okkur er í svipaðri stærð og hann var þegar kvótakerfið byrjaði. (SigurjÞ: Minni.) Það er nánast einstakt miðað við þau hafsvæði sem við þekkjum að svo sé, nánast alls staðar annars staðar hefur hann verið að minnka. Árangurinn sem hefur reyndar verið upp og niður í gegnum tíðina vegna þess að við höfum verið að læra og við höfum auðvitað gert mistök í því lærdómsferli felst í því að við erum þó með stofninn á svipuðum slóðum og hann var í upphafi. Við höfum lært það af þessari reynslu, hv. þingmaður, að við getum náð honum upp þó að síðan önnur mistök hafi orðið okkur að fótakefli síðar.

Forsendurnar sem lagðar eru upp hjá hv. þingmanni eru greinilega rangar, úrtakssýnataka fór ekki fram, sýnatakan var óvegin og þá eru niðurstöðurnar rangar sem hv. þingmaður leggur upp með. Þess vegna þurfum við að byrja þessa umræðu upp á nýtt og það væri ágætt að gera það í sjávarútvegsnefndinni og fara yfir þessar tölur en ekki að koma inn í þingið með rangar tölur úr vitlausum sýnatökum.