131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Vöxtur og viðgangur þorsks í Breiðafirði.

[14:06]

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Þessi umræða sem við eigum í núna verður til vegna reglugerðarlokunar í Breiðafirði. Ég verð að segja eins og er að ég varð hálfhissa á svörum hæstv. ráðherra við þeim spurningum sem hér voru lagðar fram. Svörin bera kannski svolítinn vott um það hvernig menn yfirleitt bregðast við gagnrýni á störf Hafrannsóknastofnunar.

Gagnrýnin þarf ekkert alltaf að vera neikvæð þó að menn vilji ræða einhverjar niðurstöður í jafnóvissum vísindum og fiskifræðin er. Mér virðist sem vísindamenn Hafró hrökkvi alltaf í varnargírinn ef einhver vill ræða niðurstöður þeirra og menn ganga hver undir annars hönd alveg í drep við það að reyna að halda við að þær niðurstöður sem menn komust að séu þær réttu, og þær einu réttu og allt annað sé hálfgerð vitleysa.

Auðvitað þroskast fiskur mismunandi eftir búsvæðum og samanburður á lengd, þyngd og aldri er ekkert alltaf sá sami eftir mismunandi aðstæðum. Erfðaeiginleikar staðbundinna þorskstofna geta líka spilað þarna inn í því að flestir eru farnir að viðurkenna að slíkir stofnar eru til hér við landið. Það hlýtur því að vera full ástæða til þess varðandi lokanir á hólfum vegna veiða á smáfiski að menn hætti að hugsa í ferningi eða rúðustrikaðri hugsun. Þessi vísindi eru með þeim hætti að menn geta ekki beitt sömu reglu á mismunandi svæðum. Menn hljóta að þurfa að taka mið af mismunandi samsetningu á fiskinum á svæðinu, aldurssamsetningu, fæðuframboði o.s.frv. Það að miða eingöngu við sentímetra og ekkert nema sentímetra hlýtur í flestum tilvikum að vera röng nálgun. Því hvet ég hæstv. sjávarútvegsráðherra og vísindamenn Hafró til að hætta nú að hugsa inni í þessum þrönga ferningi og byrja að hugsa um það að við hljótum að þurfa að beita mismunandi aðferðum eftir mismunandi svæðum.