131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Vöxtur og viðgangur þorsks í Breiðafirði.

[14:17]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Þessi umræða undir yfirskriftinni Vöxtur og viðgangur þorsks í Breiðafirði gefur mér tilefni til að rifja upp fáeinar spurningar sem ég hef flestar sett fram áður. Mér hefði fundist að yfirskriftin hefði frekar mátt vera Vöxtur og viðgangur þorsks á Íslandsmiðum.

Þessi umræða snýst um skort á þekkingu, því miður. Við þurfum að spyrja margra spurninga. Hefur sú nýtingarstefna sem rekin hefur verið á loðnustofninum haft t.d. veruleg neikvæð áhrif á lífríkið í Breiðafirði eða Faxaflóa? Svarið við því er: Það eru ekki til rannsóknir um þetta.

Hefur sú staðreynd að loðna hefur síðan núgildandi veiðimynstur var tekið upp ekki drepist nema að litlu leyti á fiskislóðum í Breiðafirði og Faxaflóa haft sérstök áhrif á lífslíkur og afkomu þorskseiða á svæðinu fyrir Suðvesturlandi? Það er ekki til svar við þessu.

Er samhengi milli nýliðunar þorskstofnsins og áberandi lélegri þorskárganga að meðaltali síðan farið var að veiða loðnu að marki? Svarið: Það vantar rannsóknir.

Hefur breytt samsetning veiðiflotans og aukin notkun trolls og dreginna veiðarfæra valdið lífríkinu meira tjóni en áður var? Það vantar rannsóknir.

Hvers vegna vantar þessar rannsóknir? Nú er viðurkennt að stofnarnir eða ættkvíslir þorska séu margar við landið, 25% reglan getur því ekki stjórnað álagi í einstaka smáa stofna. Hafró hefur þó ekki talið ástæðu til að endurskoða regluna. Hvers vegna?

Þessar spurningar og margar aðrar sem og sú staðreynd að besta hafrannsóknastofnun í heimi sem hún er oft kölluð í sölum Alþingis hefur ekki boðleg svör við þeim benda eindregið til þess að það skorti átakanlega á stefnumörkun og forgangsröðun mikilvægra verkefna (Forseti hringir.) eða að sjónarmið einstakra hagsmunagæslumanna hafi ráðið um of hvað varðar ákvarðanir um stefnu þessarar góðu stofnunar.