131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Vöxtur og viðgangur þorsks í Breiðafirði.

[14:20]

Magnús Stefánsson (F):

Herra forseti. Breiðafjörðurinn hefur löngum verið mikil matarkista og fá svæði við landið hentað betur til bátaútgerðar enda er við Breiðafjörðinn nú rekin öflug útgerð báta af ýmsum stærðum. Breiðfirskir sjómenn og útgerðarmenn stigu markvert skref fyrir margt löngu þegar tekin var ákvörðun um að loka innstu svæðum fjarðarins fyrir þorskveiðum og veita þorski þar með frið til vaxtar og viðgangs. Fullyrða má að þessi aðgerð hafi skilað sér æ síðan. Hún er til mikillar fyrirmyndar og ber vitni um framsýni og skilning þeirra sem að þessu stóðu á sínum tíma.

Eins og oft áður hefur verið mikil umræða um ástand þorskstofnsins í Breiðafirði, m.a. vegna þeirra svæðalokana sem hér hafa verið ræddar. Við eigum að sjálfsögðu að vaka yfir ástandi fiskstofna og fylgjast með samsetningu afla og oft hefur verið gripið til svæðalokana til verndar smáfiski. Hins vegar er mikilvægt að samtímis séu hagsmunir sjómanna, útgerða og sjávarbyggða hafðir í huga, sérstaklega þegar um er að ræða aðgerðir eins og þær að loka veiðisvæðum á grunnsævi. Í þessu sambandi þarf því að feta hinn gullna meðalveg eins og í svo mörgu öðru og er mikilvægt að forsendur séu vel rökstuddar og stigið varlega til jarðar.

Ýmsir sjómenn hafa gert athugasemd við vinnubrögð Hafró varðandi þessa svæðalokun og fært rök fyrir því. Það er gömul saga og ný að bera þarf virðingu fyrir þekkingu sjómanna á því lífríki sem þeir byggja afkomu sína á og samræma við þá vísindalegu þekkingu sem fiskifræðin byggir á. Það hefur að vísu verið gert að einhverju marki en eflaust má gera betur í því sambandi.

Herra forseti. Ég vil í lokin leggja áherslu á það að við aðgerðir er varða lokanir veiðisvæða við þær aðstæður sem hér um ræðir sé ætíð haft gott samráð við hagsmunaaðila og þá heimaaðila sem málið varðar. Miklir hagsmunir eru í húfi, jafnt til skemmri tíma sem til framtíðar.