131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Vöxtur og viðgangur þorsks í Breiðafirði.

[14:22]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mér finnst furðulegt að sjálfur doktorinn í kynþroska fisktegunda skuli sitja þögull í salnum þegar þessi umræða fer fram. Það mætti ætla að hann hefði eitthvað til mála að leggja um ástandið í Breiðafirði og þær athyglisverðu og að mörgu leyti ískyggilegu upplýsingar sem þaðan hafa verið að koma úr lífríkinu. Maður skilur vel að heimamönnum sé brugðið, bæði vegna þess að menn hafa áhyggjur af því sem þarna er að gerast og viðgangi stofna og breytingum í lífríkinu sem eru af ýmsum toga og sumar tengdar hækkandi hitastigi. Svo er auðvitað afkoma manna undir þegar gripið er til lokana og friðunaraðgerða.

Mér finnst umræðan fyrst og fremst sýna okkur hversu mikið skortir enn upp á að við höfum næga þekkingu í höndunum, m.a. vegna þess að við fórum auðvitað allt of seint og af allt of litlum burðum af stað í skipulagðar rannsóknir á grunnslóðinni og á svæðisbundnum grunni, á grunnslóð við landið, þar sem bæði væri skoðað afmarkað aðstæður í lífríkinu á einstökum svæðum og menn reyndu að átta sig á því að hve miklu marki tegundir væru staðbundnar. Það er auðvitað stórkostlegur veikleiki, hlýtur að teljast, í bæði rannsóknargrunni okkar og fiskveiðistjórnarkerfi að hér er almennt ekki tekið tillit til þess með sama hætti og er gert t.d. í nágrannalöndunum. Í Skagerak er t.d. greint algerlega á milli staðbundinna stofna við ströndina og göngufisks utan úr Norðursjónum í fiskveiðistjórn.

Einnig er það að fjölstofna rannsóknir og samhengi í lífríkinu í heild sinni fóru hér seint af stað. Þeim mun meiri ástæða er til að efla þessar rannsóknir og þeim mun meiri ástæða er líka til að taka til rækilegrar athugunar allar rökstuddar skoðanir (Forseti hringir.) sem settar eru fram í þessum efnum hvaðan sem þær koma. Því er ekki að heilsa.