131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Vöxtur og viðgangur þorsks í Breiðafirði.

[14:26]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Það er alltaf verið að fara yfir vinnubrögð, bæta þau og endurskoða. Það er eitt af því sem við gerum nú að áður en reglugerðarlokanir eru lagðar til er fiskurinn aldursgreindur en hins vegar er og hefur verið mjög gott samræmi á milli lengdar og aldurs í þorskstofni okkar og eins er ákveðið samræmi á milli þyngdar og lengdar fisksins. Það hefur verið ágætt líka og ekkert sem bendir til að almennt fari eitthvað úrskeiðis í þeim mælingum sem þarna hafa verið. Það að 25% af mælingunni á tilteknum stöðum þarna sé eldri hægvaxta (Gripið fram í.) fiskur sýnir (Gripið fram í.) einungis að það er breytileiki í þessum stofni. Það er yfirleitt alltaf í náttúrunni eins og hv. þingmaður á að vita.

Það sem mér finnst þó einkennilegt í þessari umræðu er að menn tala um vönduð vinnubrögð og mismunandi mat en menn sem eiga að vita betur, landbúnaðarfræðingar, jarðfræðingar, stærðfræðingar og sjávarútvegsfræðingar, minnast engu orði á að það sé eitthvað athugavert við það þegar menn koma með tölur út frá sýnum sem ekki eru tekin tilviljunarkennt og þar sem ekki er um vegið úrtak að ræða. (Gripið fram í.) Menn minnast ekki á það (Gripið fram í.) þegar verið er að kynna tölur sem lagðar eru til grundvallar sem þannig eru fengnar. Það er ekki uppbyggilegt fyrir umræðuna.

Ég verð að segja eins og hv. þingmaður Steingrímur J. Sigfússon að ég sakna þess að hafa ekki sérfræðinginn, dr. Össur, hv. þingmann, með í þessari umræðu því að hann hefði örugglega séð í gegnum þá tölfræði sem borin hefur verið á borð fyrir okkur. Það sem við verðum líka að hafa í huga, af því að við erum að tala um kynþroskann, er að ólíkt því sem er með marga vatnafiska að þorskurinn er þannig að hann vex eftir að hann verður kynþroska. Hann heldur áfram að vaxa (Gripið fram í.) og vex jafnvel um 25–35% á ári eftir að hann er orðinn kynþroska. Auðvitað vex hann þá ekki eins hratt og þegar hann er yngstur og vex hraðast en það er samt sem áður, herra forseti, mjög umtalsverður vöxtur sem skiptir máli fyrir viðgang stofnsins.

(Forseti (HBl): Ég vil minna hæstv. ráðherra á að nefna ber þingmenn með fullu nafni.)