131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:29]

Margrét Frímannsdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Í upphafi þingfundar fór fulltrúi og þingmaður Samfylkingarinnar fram á það að þessari umræðu yrði frestað vegna fjarveru hæstv. menntamálaráðherra. Ég styð þá ósk eindregið. Við þessari beiðni fengust engin svör frá hæstv. forseta og ég ítreka nú úr þessum ræðustól að við óskum eindregið eftir því, þingflokkur Samfylkingarinnar, að þessari umræðu verði frestað þangað til hæstv. menntamálaráðherra kemur til landsins ef hún er stödd erlendis eins og okkur er sagt.

Vegna orða hv. þm. Hjálmars Árnasonar sem sagði að þetta væri til þess að minnka vægi þingsins, sú krafa að ráðherra væri viðstaddur, verð ég mótmæla þeim orðum. Ég tel að samvinna milli framkvæmdarvalds og Alþingis þurfi að vera til staðar og að það sé í raun skylda hæstv. ráðherra hverju sinni að vera viðstaddur þau mál sem undir hann heyra og heyra þau viðhorf sem fram koma hjá einstaklingum, hjá hv. þingmönnum sem hafa lagt mikla vinnu í viðkomandi mál, eins og það mál sem hér á að fara á dagskrá. Ég óska eftir því, hæstv. forseti, að fá svör við því hvort möguleiki er á því að fresta þessari umræðu þar til hæstv. menntamálaráðherra getur verið viðstödd.