131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:31]

Frsm. 1. minni hluta menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil bara taka undir orð hæstv. 1. þm. Suðurk. og ítreka mín eigin orð frá upphafi þingfundar um að þessari umræðu yrði frestað. Hæstv. forseti hefur svarað fyrir sitt leyti að svo verði ekki gert og að staðgengill menntamálaráðherra sé hér í húsi. Ég vil samt sem áður ítreka þá kröfu mína vegna þess hvernig þetta mál er til komið. Það er skilgetið afkvæmi hæstv. menntamálaráðherra sem hefur verið rekið áfram af henni og hennar mönnum með tilkynningum til Alþingis og annarra í fjölmiðlum. Því er mjög eðlilegt að hún, hæstv. menntamálaráðherra sjálf í eigin persónu en ekki staðgengill hennar, hlýði á þá umræðu sem hér mun fara fram um efnislega þætti málsins, um þær grundvallarbreytingar sem verið er að boða á íslensku skólakerfi, grundvallarbreytingar sem fela í sér í fyrsta lagi að tækninám verður einungis til boða gegn háum skólagjöldum í einkareknum skóla og í öðru lagi fordæmalaust eignarhald á háskólastigi þar sem um er að ræða einkahlutafélag.

Þessir efnisþættir eru ekki til umræðu, virðulegi forseti, í því þingmáli sem við erum að fjalla um. Þar er verið að fjalla um afnám laga um Tækniháskóla Íslands en allt efnisinnihald sem greinargerðir byggja á og hvað mun taka við og hvernig hinn nýi sameinaði skóli verður er til komið úr samningum á milli menntamálaráðherra og eigenda hins nýja skóla, sem er Verslunarráð Íslands að 90% og svo Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins með mikinn minni hluta.

Hvað fór fram um innihald og inntak þessa sáttmála, hvernig verður hinum nýja skóla fyrir komið, hvað verður þar kennt, hvernig verður eignarhaldið á honum, af hverju er valið einkahlutaféalg en ekki sjálfseignarstofnun, hvernig á að tryggja akademískt frelsi og jafnrétti til náms? Öllu þessu getur enginn svarað nema hæstv. menntamálaráðherra af því að þetta er hennar mál. Hún hefur rekið það á undanförnum mánuðum, þetta er stórpólitískt mál, grundvallarbreyting á íslensku skólakerfi ef það nær fram að ganga. Þess vegna óskuðum við vinsamlega eftir því við hæstv. forseta að umræðan færi ekki fram í fjarveru hæstv. ráðherra sjálfrar. Svo einföld var sú ósk, það var ekki verið að krefjast þess að umræðan yrði felld niður út af tæknilegum atriðum, heldur einungis út af því að þetta er pólitísk sýn hæstv. ráðherra. Hún ber alla ábyrgð á því máli framkomnu í þingið og því að hafa fengið meiri hluta þingsins til fylgilags við það. Enginn getur svarað þessum spurningum nema hæstv. ráðherra.

Þess vegna ítrekum við ósk okkar um það að málið verði tekið af dagskrá og rætt þegar hæstv. ráðherra sér sér fært að mæta í þingsalinn.