131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:36]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tel þá ósk sem hér hefur verið sett fram um að þetta mál bíði eftir því að hæstv. menntamálaráðherra komi aftur til þings fullkomlega eðlilega og nægjanlega rökstudda. Ég undrast þann málflutning sem hér var uppi hafður í fyrri skoðanaskiptum um þetta mál að með því væru menn á einhvern hátt að veikja stöðu þingsins eða það væri lítilsvirðing við þingræðið og forræði þingsins á málinu að fara fram á að hæstv. ráðherra væri viðstödd umræðuna. Ég segi nú bara: Heyr á endemi. Síðan hvenær fór þetta að snúa þannig?

Það er akkúrat öfugt, herra forseti, það sem veikir þingið er lítilsvirðing ráðherranna þegar þeir mæta ekki hér til þess að svara fyrir málaflokka sína og vera til viðræðna um þá. Þetta er jú stjórnarfrumvarp. Verði þetta mál gert að lögum fer það í hendurnar á hæstv. ráðherra sem annast um framkvæmdina. Eiginlega eru alveg nýir tímar upprunnir fyrir mér þegar þingræðissinninn allt í einu vaknar af værum blundi í brjóstum stjórnarliða og þeir mega varla við bindast hér í ræðustólnum af áhyggjum yfir því að menn átti sig ekki á því að málið sé á forræði þingsins.

Er það þá alveg öruggt mál að ráðherrarnir hafi ekkert verið með puttana í því? Er algerlega á hreinu að stjórnarliðar hefðu getað gert allar þær breytingar á frumvarpinu sem þeir vildu án þess að bera það undir ráðherrann?

Eigum við ekki bara að tala mannamál hérna? Ætli það sé ekki stutt í spottanum þegar þessi ráðstjórn hér er með lið sitt að koma málunum í gegnum þingið? Miklu oftar, því miður, stendur maður frammi fyrir því í þingnefndum að það þarf alltaf að hringja út í bæ og fá leyfi fyrir hverri einustu breytingu, jafnvel þó að verið sé að leiðrétta stafsetningarvillur í stjórnarfrumvörpum. Þannig er þetta auðvitað og við skulum bara tala mannamál um þá hluti.

Það er fullkomlega eðlilegt að fara fram á það að ráðherrann sé hér viðstödd þegar stórt og mjög umdeilt grundvallarmál á sviði hæstv. ráðherra á í hlut. Það er alveg hörmulega ambögulegt að haga því þannig að daginn eftir að ráðherra fer út úr þinginu komi þetta mál á dagskrá. Af hverju er ekki reynt að skipuleggja hlutina þannig, dagskrá þingsins og þá ferðalög ráðherranna, að þetta rekist ekki svona hrottalega á?

Síðan vil ég minna þá þingræðissinnana í stjórnarliðinu á að hér á í hlut sá hæstv. ráðherra sem hefur tekið upp þá nýbreytni að boða gjarnan fyrirhuguð þingmál sín hálfköruð í viðhafnarviðtölum í Morgunblaðinu. (Gripið fram í: Hún er ekki ein um það.) Er það þá virðingin sem menn telja að verði mest gerð í samskiptum við þingið, eins og hæstv. ráðherra gerði í þessu máli sem var hrint úr vör í Morgunblaðinu síðsumars og gerir aftur núna varðandi Ríkisútvarpið? Er það til marks um djúprætta virðingu manna fyrir þingræðinu að hlutina beri þannig að, hvað þá að tala um eitthvert þverpólitískt samráð eða samstarf um slíka hluti?

Einhvern tíma hefði verið sagt, herra forseti, við þessar aðstæður: Sé hæstv. ráðherra áhugasamur um að koma máli sínu áfram er hann ekki of góður til að mæta hér.