131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:49]

Margrét Frímannsdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er langt því frá eins og hér kom fram hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að það sé verið að gera dvöl hæstv. ráðherra erlendis tortryggilega. Það er einungis verið að fara fram á það að hæstv. ráðherra sé hér til að svara þeim pólitísku spurningum sem vöknuðu við vinnu nefndarinnar. Vissulega var spurningum varpað fram hér við 1. umr. Hæstv. ráðherra svaraði þá býsna litlu. Nú er búið að leggja töluvert mikla vinnu í málið, það er búið að kalla marga til, og við það hafa vaknað margar pólitískar spurningar sem ekki hafa fengist svör við frá hæstv. ráðherra. Mér finnst fráleitt að taka svona stór mál á dagskrá að ráðherra fjarstaddri sem hefur auðvitað ákveðnum þingskyldum að gegna — nema það sé þá gert í samráði við stjórnir þingflokkanna, að það sé sameiginleg ákvörðun að málið sé þess eðlis að samþykki sé fyrir því að hæstv. ráðherrar séu ekki viðstaddir og staðgenglar séu í staðinn.

Ég ítreka þá ósk okkar að þessari umræðu verði frestað.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði: Hér fara mál í gegnum þrjár umræður. Má þá treysta því, hæstv. forseti, að 3. umr. verði ekki sett á dagskrá fyrr en hæstv. ráðherra er komin til baka þannig að hægt sé að endurtaka umræðuna hér, í það minnsta þær spurningar sem ekki fást svör við? Ég tel einboðið að þannig verði það. Ef tekin verður ákvörðun um að keyra umræðuna áfram tel ég einboðið að 3. umr. bíði komu hæstv. menntamálaráðherra þannig að hægt sé að fara yfir umræðuna aftur. Mér þykir það sjálfsagt.