131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:56]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Margar vondar ræður hafa verið haldnar í þessum ræðustóli en tvær þær síðustu eru nú sýnu verstar að minni hyggju. (EKG: Þingmaðurinn hefur ekki hlustað á sjálfan sig.) Ég segi nú bara: Æ, æ.

Venjan hefur einfaldlega verið sú, og það vita menn sem eru eldri en tvævetur í þessu húsi, að þeir ráðherrar sem hafa einhvern metnað fyrir málum sínum fylgja þeim eftir í gegnum þingið, ekki bara í 1. umr., heldur 2. og 3. umr., ljúka með öðrum orðum málinu. Ég þykist a.m.k. viss um það að hæstv. forseti, sem er líka eldri en tvævetur og hefur verið hér um langt skeið, þekkir það bæði stjórnarmegin við borðið og stjórnarandstöðumegin, hafi haldið nokkrar ræðurnar í þessum ræðustóli og einmitt óskað eftir því að ráðherrar á viðkomandi stund hafi verið kallaðir hingað til orðræðu um mikilvæg mál. (Gripið fram í.)

Af því að ég sé hér hv. þm. Steingrím J. Sigfússon minnist ég þess að hafa fylgst með því í fjölmiðlum á sínum tíma þegar hæstv. forseti Halldór Blöndal ræsti út hv. þm. Steingrím J. Sigfússon einhvern tíma á fimmta tímanum að morgni og óskaði eftir orðræðu við hann hér um mikilvægt mál. Hv. þingmaður, þáverandi landbúnaðar- eða samgönguráðherra, brást auðvitað hratt við og kom til fundarins.

Ég hef allan skilning á því að hæstv. menntamálaráðherra þurfi að gegna mikilvægum skyldum erlendis. Hún hefur hér lögmæt forföll og ég hef allan skilning á því. Á móti kemur að við hljótum að fresta þessu máli þar til hún kemur aftur, það er ekkert flóknara en það. Erum við í einhverju tímahraki? Er þessu að ljúka á eftir, eða hvað?

Ég vek líka athygli á því að það eru ýmis önnur stjórnarfrumvörp í gangi í þinginu sem við gætum tekið til við, svo að ég tali nú ekki um fjölmörg þingmannafrumvörp, og þá einkanlega frá stjórnarandstöðunni. Hér eru næg verkefni. Ég vil líka halda því mjög ákveðið til haga að ég hef fullt traust á hv. formanni menntamálanefndar, að hann geti haldið umræðunni gangandi. Einfaldleikinn er bara þessi og venjan er sú í þessum sal, og ég ætla að vona að menn fari ekki að gefa frekari afslátt á því, að ráðherrum ber, sjálfra sín vegna ekki síst og stöðu sinnar vegna í henni pólitík, að vera viðstaddir og taka þátt í hinni pólitísku umræðu. Þróunin hefur því miður verið á þann veg að á því hefur verið að slakna mjög verulega. Þau hafa ekki haft nennu til þess að standa hér fyrir máli sínu. Þetta vitum við öll.

Að lyktum segi ég, herra forseti, aðeins þetta um starfshætti þingsins að séu ráðherrar ríkisstjórnarinnar uppteknir við annað eru þeir a.m.k. ekki uppteknir við það að búa hér út þau stjórnarfrumvörp sem þeir lofuðu á haustdögum. Það eru komin 50 stjórnarfrumvörp af þeim 112 sem listinn langi gaf til kynna að ættu að koma fram á þessu þingi. Ég spyr: Hvað dvelur orminn langa? Ekki eru þau a.m.k. upptekin við stjórnarfrumvörpin.