131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:07]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Gunnar Birgisson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka nú fyrir að við getum loksins hafið þessa umræðu. Skrípaleikur stjórnarandstöðunnar er alveg með ólíkindum og hefur ekki verið henni til framdráttar. Hann er væntanlega skilaboð til þessara 2.500 nemenda sem bíða eftir að þetta frumvarp verði afgreitt.

Ég mæli fyrir nefndaráliti um afnám laga nr. 53/2002, um Tækniháskóla Íslands, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Árnason og Val Árnason frá menntamálaráðuneyti, Inga Boga Bogason frá Samtökum iðnaðarins, Gísla Tryggvason frá Bandalagi háskólamanna, Einar H. Jónsson frá Tæknifræðingafélagi Íslands, Loga Kristjánsson frá Tæknifræðingafélagi Íslands og Verkfræðingafélagi Íslands, Guðfinnu Bjarnadóttur, rektor Háskólans í Reykjavík, Stefaníu Katrínu Karlsdóttur, rektor Tækniháskóla Íslands, Sverri Sverrisson, formann háskólaráðs nýs háskóla sem fyrirhugað er að stofna, Bjarka Brynjarsson frá Háskólanum í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands, Sigurjón Valdimarsson og Mörthu Hjálmarsdóttur, fulltrúa kennara við Tækniháskóla Íslands, og Ásgeir Ingvason og Gunnar Hall, fulltrúa nemenda við sama skóla.

Frumvarpið var sent til umsagnar og bárust svör frá Samtökum atvinnulífsins, Verkfræðingafélagi Íslands, Tæknifræðingafélagi Íslands, Bandalagi íslenskra námsmanna, Félagi tækniháskólakennara, Háskólanum á Akureyri, Bandalagi háskólamanna, Iðnnemasambandi Íslands og verkfræðideild Háskóla Íslands. Þá barst athugasemd frá Gunnari Hall fulltrúa nemenda við frumgreinadeild Tækniháskóla Íslands.

Í frumvarpinu er lagt til að lög um Tækniháskóla Íslands verði felld úr gildi 1. júlí nk. og rekstri skólans hætt í tilefni af fyrirhugaðri sameiningu skólans og Háskólans í Reykjavík í nýjum háskóla. Fyrirhuguð sameining byggist á viljayfirlýsingu menntamálaráðherra, Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og Verslunarráðs Íslands um stofnun einkahlutafélags sem tekur við starfsemi skólanna, dags. 19. október 2004, sbr. fylgiskjal I.

Við umfjöllun málsins vöknuðu ýmsar spurningar meðal nefndarmanna varðandi væntanlegt fyrirkomulag náms eftir að Tækniháskólinn hefur verið lagður niður auk annarra atriða enda ekki miklar upplýsingar um það að finna í athugasemdum við frumvarpið. Meiri hlutinn bendir á að fyrir liggja skrifleg svör frá rektorum Háskólans í Reykjavík, HR, og Tækniháskóla Íslands, THÍ, Sverri Sverrissyni og Bjarka Brynjarssyni, sem þeir skiluðu sameiginlega til nefndarinnar þar sem ekki náðist að svara spurningum nefndarmanna munnlega á fundi sökum tímaskorts. Í þeim er komið inn á flest álitamálin og ýmsar gagnlegar upplýsingar veittar og telur meiri hlutinn rétt að geta helstu atriðanna.

Í fyrsta lagi var spurst fyrir um tæknifræðinámið en við umfjöllun málsins var lýst áhyggjum af því hvort til stæði að fella niður einhverjar greinar þess og einnig hvort ekki væri hætta á því að nemendur mundu frekar kjósa að stunda tæknifræðinám erlendis þar sem engin skólagjöld væru innheimt. Í svörunum kemur fram að lögð verði mikil áhersla á tæknifræðinámið í hinum nýja háskóla, m.a. með því að bjóða í fyrsta sinn hér á landi framhaldsnám til MSc í tæknifræði. Efnislegt innihald allra námsbrauta í tæknifræði muni haldast óbreytt, en áherslusvið verði skýrð. Þannig verði tölvu- og upplýsingafræði t.d. færð undir rafmagnstæknifræði sem valsvið. Slík skipulagsbreyting sé alls ekki til þess gerð að minnka vægi tæknifræðinámsins í sameinuðum háskóla. Í þessu sambandi bendir meiri hlutinn á að fyrir liggur yfirlýsing frá menntamálaráðuneyti, dags. 3. febrúar 2005, þar sem m.a. kemur fram að stefnt sé að því að framboð í tæknigreinum verði eflt og aukið á komandi árum. Hvað varðar skólagjöldin kemur fram í svörunum að innheimta þeirra geri skólanum kleift að efla námið enn frekar og það muni því styrkja stöðu háskólans í samkeppni við erlenda tækniháskóla. Kostnaður nemenda við að stunda nám erlendis sé umtalsverður og því sé talið að hófleg skólagjöld á Íslandi vegi þar lítið. Auk þess sé æskilegt að hluti námsmanna stundi háskólanám erlendis eins og verið hefur.

Spurt var í öðru lagi hvernig samstarfi milli háskóla og rannsóknastofnana yrði háttað. Í svörunum kemur fram að THÍ hafi átt mjög gott og farsælt samstarf við rannsóknastofnanir og hafi gert samstarfssamninga við Iðntæknistofnun, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og Íslenskar orkurannsóknir. Nýr háskóli muni halda samstarfinu áfram og fyrirætlanir séu um enn meira og markvissara samstarf. Eitt af markmiðum nýja háskólans sé að auka rannsóknir á sviði tæknifræði og verkfræði í nánu samstarfi við rannsóknastofnanir. Það sé mjög mikilvægt að framtíðarhúsnæði og staðsetning háskólans leyfi náið samstarf og jafnvel sambýli við rannsóknastofnanir.

Spurt var í þriðja lagi um fyrirkomulag frumgreinadeildar (nám til undirbúnings frekara námi við háskóladeildir THÍ), einkum hvar hún yrði staðsett og hvort skólagjöld yrðu innheimt. Í svörunum kemur fram að nýr háskóli muni sinna náminu með sama hætti og var í THÍ. Skólagjöld verði ekki innheimt í frumgreinadeild, deildin sé í raun ekki eins og háskóli, í því námi séu ekki stundaðar rannsóknir heldur einungis lögð áhersla á góða kennslu. Hvað varðar þá nemendur sem þegar hafa innritað sig í frumgreinadeild og stefna í kjölfarið á nám í hinum nýja háskóla var upplýst síðar í umfjölluninni af hálfu formanns háskólaráðs hins nýja háskóla og fulltrúa nemenda við frumgreinadeild THÍ að samkomulag hefði náðst þess efnis að umræddir nemendur fengju fyrstu tvö árin frítt í allar deildir en þyrftu að greiða fyrir síðasta árið. Fulltrúi nemenda lýsti yfir almennri ánægju með þetta samkomulag. Telur meiri hlutinn mikilvægt að góð sátt hafi náðst um málið. Þá kemur fram í svörunum að það sé mikið hagsmunamál fyrir háskólann að halda frumgreinanáminu sem sterkustu og að hið opinbera haldi áfram stuðningi við það, eins og verið hefur.

Spurt var í fjórða lagi hver greiði skólagjöld vegna núverandi THÍ-nemenda sem flytjast í nýjan háskóla, nánar tiltekið hvort sérstakur samningur væri við menntamálaráðuneyti vegna þessara nemenda um skólagjöldin. Í svörunum kemur fram að háskólanemar í THÍ hafi greitt innritunargjöld en ekki skólagjöld. Þegar nýr háskóli taki til starfa muni þeir stúdentar sem nú þegar eru í háskólanámi í THÍ halda áfram að greiða gjöld sem séu í samræmi við þau innritunargjöld sem ríkisháskólar innheimta. Þannig haldi þessir nemendur áfram námi án þess að greiða svokölluð skólagjöld. Menntamálaráðuneyti hafi enga samninga gert um greiðslu skólagjalda fyrir þessa nemendur.

Í fimmta lagi var spurt um fyrirkomulag heilbrigðisdeildarinnar. Í svörunum kemur fram að fyrir liggi að námið muni flytjast yfir til Háskóla Íslands, þrýstingur hafi verið frá stéttarfélögum meinatækna og geislafræðinga um flutning þangað. Í yfirlýsingu menntamálaráðuneytisins, dagsettri 3. febrúar 2005, sem áður er getið, áréttar ráðuneytið að það hafi síðastliðið haust haft frumkvæði að viðræðum við forsvarsmenn Háskóla Íslands og stjórn hins sameinaða háskóla um fyrirkomulag kennslu í meinatækni og geislafræði. Í kjölfar þess hafi það orðið að samkomulagi og ráðuneytið ákveðið að í haust skyldi kennsla hefjast við læknadeild Háskóla Íslands í umræddum námsgreinum sem til þessa hafi verið kenndar í Tækniháskóla Íslands. Þeir nemendur sem þegar stundi nám í þessum greinum við Tækniháskóla Íslands muni ljúka námi sínu við nýjan sameinaðan háskóla. Fari þessi flutningur því fram í fullu samráði við báða skólana og sé það í samræmi við eindreginn vilja viðkomandi fagfélaga.

Í sjötta lagi var spurt um réttindi starfsmanna og tímaramma. Í svörunum kemur fram að lögð verði áhersla á að tryggja sem best réttindi stúdenta og starfsmanna í samrunaferlinu. Stjórnarformaður hins nýja háskóla hafi tilkynnt starfsmönnum Tækniháskóla Íslands að allir fái samning við skólann. Varðandi tímarammann kemur fram að samkvæmt frumvarpinu sé gert ráð fyrir að Tækniháskóli Íslands verði lagður niður 30. júní næstkomandi. Gert sé ráð fyrir að öllum starfsmönnum Tækniháskóla Íslands verði tilkynnt 31. mars næstkomandi að niðurlagning skólans jafngildi uppsögn. Hinn nýi háskóli hafi skuldbundið sig til að taka við öllum starfsmönnum Tækniháskóla Íslands til starfa. Sama eigi við um starfsmenn Háskólans í Reykjavík, þeir muni hætta starfi hjá Háskólanum í Reykjavík og verða starfsmenn sameinaðs háskóla, ekki sé heldur gert ráð fyrir að nokkrum starfsmanni Háskólans í Reykjavík verði sagt upp störfum. Síðar við umfjöllunina upplýsti formaður nýs háskólaráðs að nú væri að störfum nefnd þriggja lögfræðinga sem hefði það hlutverk að tryggja að í hvívetna yrði gætt að réttarstöðu starfsmanna Tækniháskóla Íslands, m.a. væri verið að skoða lífeyrissjóðsmál starfsmanna.

Í sjöunda lagi var spurt hvernig samstarfi við framhaldsskóla yrði háttað. Í svörunum kemur fram að samstarf við framhaldsskóla þurfi að efla. Fram undan sé öflugt kynningarstarf meðal starfsmanna og stjórnenda framhaldsskóla landsins. Meðal þess sem tekið verði fyrir sé athugun á hvernig samstarfi nýja skólans og framhaldsskólanna skuli háttað, hvernig því verði best fyrir komið. Nokkuð ítarleg umræða fór fram um hvers vegna hlutafélagaformið hafi verið valið fram yfir sjálfseignarstofnun, hvort akademísku frelsi kennara verði ekki stefnt í hættu. Í svörunum kemur fram að hlutafélagaformið sé almennt heppilegra, hlutafélagalöggjöf geri ráð fyrir að hægt sé að stofna félag sem ekki sé rekið í hagnaðarskyni en svo sé gert í 2. gr. stofnsamþykkta hins nýja félags sem ætlað er að reka sameinaðan háskóla, samanber fylgiskjal II með þessu nefndaráliti. Þar komi fram að hlutverk félagsins sé ekki að afla hluthöfum þess fjárhagslegs ávinnings af rekstri, heldur renni hugsanlegur hagnaður til frekari uppbyggingar starfseminnar. Þá eru kostir hlutafélagaformsins nánar raktir og færð rök fyrir því að akademísku frelsi sé ekki ógnað með breyttu rekstrarformi. Tekur meiri hlutinn undir þau sjónarmið sem þar koma fram.

Spurt var um setu fulltrúa starfsmanna og nemenda í háskólaráði. Í svörunum kemur fram að hlutverk háskólaráðs sé m.a. að ákvarða námsframboð og móta framtíðarstefnu fyrir háskólann og veita honum stuðning, aðhald og eftirlit þannig að hann ræki hlutverk sitt af kostgæfni. Í störfum sínum geti háskólaráð fengið starfsmenn og nemendur til ráðgjafar eftir því sem við á hverju sinni. Lögð sé áhersla á að gott upplýsingaflæði sé frá framkvæmdastjórn til nemenda og starfsmanna og öfugt þannig að báðir hópar geti komið ábendingum og óskum til háskólaráðs í gegnum framkvæmdastjórn. Þessi háttur hafi verið viðhafður í Háskólanum í Reykjavík frá stofnun skólans og ekki verið gagnrýndur, hvorki af nemendum né starfsmönnum.

Meiri hlutinn leggur áherslu á að eðlileg þátttaka starfsmanna og nemenda í stjórn skólans verði tryggð og að þeim samskiptum verði fundinn eðlilegur farvegur. Meiri hlutinn fagnar frumvarpi þessu og telur að fyrirhuguð sameining skólanna muni efla verkfræði- og tæknifræðinám enn frekar hér á landi sem og atvinnulífið og fjölga tækifærum námsmanna til framtíðar. Meiri hlutinn leggur áherslu á að þau atriði sem nefnd hafa verið hér að framan verði höfð að leiðarljósi við undirbúning hins nýja háskóla, einkum er varðar eflingu tæknifræðináms, samstarf við rannsóknastofnanir og framhaldsskóla, að frumgreinanámið haldi vægi sínu og að réttindamálum starfsmanna og nemenda verði sinnt af kostgæfni.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Frumvarpið hefur verið gagnrýnt af hálfu stjórnarandstæðinga. Ég kem kannski að nefndarálitum þeirra seinna en þau eru afar sérkennileg svo vægt sé til orða tekið, en bæði fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar eru á móti frumvarpi.

Undir nefndarálit meiri hlutans skrifa auk mín háttvirtir þingmenn Dagný Jónsdóttir, Hjálmar Árnason, Kjartan Ólafsson og Sigurður Kári Kristjánsson. Sigurjón Þórðarson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu með fyrirvara.

Rétt til að fara í gegnum það atriði sem helst hefur verið gagnrýnt og menn hafa reynt að gera tortryggilegt, þ.e. hvers vegna hlutafélagaformið er valið fram yfir sjálfseignarstofnunarformið. Þá er rétt, með leyfi forseta, að vitna í umsögn frá rektor Háskólans í Reykjavík, Guðfinnu Bjarnadóttur:

„Reynsla okkar og kynni af þessum tveimur formum hefur sannfært okkur um að hlutafélagaformið sé almennt heppilegra þó alls ekki beri að gera lítið úr sjálfseignarstofnunum. Hlutafélagalöggjöf gerir ráð fyrir að hægt sé að stofna félag sem ekki er rekið í hagnaðarskyni, en svo er gert í annarri grein stofnsamþykkta hins nýja félags sem ætlað er að reka sameinaðan háskóla. Þar kemur fram að hlutverk félagsins er ekki að afla hluthöfum þess fjárhagslegs ávinnings af rekstri heldur rennur hugsanlegur hagnaður til frekari uppbyggingar starfseminnar.

Margir tengja saman félagsform annars vegar og hagnaðarmarkmið hins vegar. Það er ekkert sem segir til um það að sjálfseignarstofnun geti ekki eða eigi síður að skila hagnaði en hlutafélag. Gert er ráð fyrir í lögum að hagnaður sjálfseignarstofnunar renni til starfseminnar sjálfrar eða þess málefnis sem hún starfar fyrir. Félagsformið hlutafélag þarf ekki heldur að skila eigendum sínum beinum fjárhagslegum ávinningi. Erlendis kallast þetta „non-profit-organizations“ … Nefna má aðra menntastofnun sem er hlutafélag og það er Menntafélagið ehf. sem rekur Stýrimannaskólann og Vélskólann. Þessi hlutafélög, Menntafélagið ehf. og Hástoð ehf., sem mun reka hinn sameinaða háskóla hafa samkvæmt lögum (samþykktum) félaganna ekki heimild til að greiða eigendum sínum arð eða veita þeim á nokkurn annan hátt beinan fjárhagslegan ávinning. Ef fjárhagslegur afgangur verður af rekstrinum skal hann renna til starfsemi viðkomandi menntastofnunar. Fjárhagslega séð þarf því enginn munur að vera á þessum tveimur rekstrarformum, hlutafélagi og sjálfseignarstofnun.

Háskólinn í Reykjavík hefur reynslu af sjálfseignarstofnunarforminu. Það hefur einmitt komið í ljós við þann rekstur að sjálfseignarstofnunarformið er ekki í öllum tilvikum hentugt, þótt tekist hafi að sneiða hjá göllunum. Það hefur tekist í tilviki Háskólans í Reykjavík vegna þess að Verslunarráð Íslands hefur eitt verið staðfastur bakhjarl háskólans og tekið á sig fulla ábyrgð og forustu. Framkvæmdastjórn Verslunarráðsins hefur sinnt hlutverki sínu vel og tryggt það að háskólaráð Háskólans í Reykjavík væri vel skipað. Lög um sjálfseignarstofnanir gera aftur á móti ráð fyrir að enginn eigi sjálfseignarstofnanir og þær geta því orðið munaðarlausar og stjórnast einvörðungu af starfsmönnum. Hugarfarið á bak við sjálfseignarstofnun er nánast það að þegar einhver hefur stofnað hana og lagt fram peninga í stofnfé þá sé afskipta viðkomandi ekki óskað frekar. Það er afar ábyrgðarlaust að reka háskóla með þeim hætti, sérstaklega þegar hlutverk háskólans er að styrkja samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og taka að sér veigamikið hlutverk á háskólastigi með samruna Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands.“

Enn held ég áfram með svör Guðfinnu Bjarnadóttur, rektors Háskólans í Reykjavík, með leyfi forseta:

„Þegar fleiri aðilar verða bakhjarlar sameinaðs háskóla, Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands, og leggja fram fjármuni er eðlilegt að nota hlutafélagaformið. Þannig er tryggt að allir hafi aðkomu að stjórn og eigi sinn hlut og skyldur í þessu félagi. Einnig er ljóst hvar ábyrgðin liggur. Að öðru leyti er engin breyting á starfsemi eða stjórnun skólans nema ábyrgð bakhjarlanna er skýrari og þar með sá stuðningur sem veittur er. Þegar nýr háskóli þarf að ráðast í fjárfestingar í nýju húsnæði, tækjabúnaði og rannsóknum þá er ómetanlegt að hafa „eigendur“ sem axla ábyrgð. Það skiptir t.d. lánveitendur miklu máli og getur haft áhrif á lánakjör.“

Enn held ég áfram að vitna í sömu umsögn:

„Í raun verður engin breyting á akademísku frelsi Háskólans í Reykjavík, sem rekinn var sem sjálfseignarstofnun með Verslunarráð Íslands sem bakhjarl, við sameiningu Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands þar sem Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins bætast við sem bakhjarlar og hluthafar í félagi um rekstur háskólans.

Það sem skiptir máli er hvernig háskólaráðin starfa. Hlutverk háskólaráðs er að móta stefnu fyrir háskólann og veita síðan skólanum stuðning, aðhald og eftirlit þannig að hann reki hlutverk sitt af kostgæfni. Hvað varðar Háskólann í Reykjavík þá sér framkvæmdastjórn skólans, sem er skipuð rektor, deildaforsetum og framkvæmdastjóra, um öll mál sem snúa að daglegri starfsemi. Það breytir engu hvort um hlutafélag eða sjálfseignarstofnun er að ræða. Þar ríkir akademískt frelsi til kennslu, þekkingarleitar, rannsókna og þar ríkir ekki utanaðkomandi þrýstingur. Það er aftur gríðarlega mikilvægt að hafa háskólaráð sem stuðningsaðila með reynslu og þekkingu úr hinum mismunandi greinum íslensks atvinnulífs. Hlutverk háskólaráðs er aftur á móti ekki að hlutast til um innri málefni, skoðanaskipti og ágreining um akademísk málefni.

Niðurstaðan var því sú að hlutafélagaformið sé heppilegra rekstrarform fyrir háskóla sem er með marga bakhjarla og þarf stuðning þeirra og þá sérstaklega meðan ekki er til sérstök löggjöf um almenn félög þar sem fjárhagslegur ágóði eigendanna er ekki höfuðmarkmið.“

Þetta segir í svörum rektors Háskólans í Reykjavík, Guðfinnu Bjarnadóttur, til menntamálanefndar.

Varðandi nefndarálit Samfylkingarinnar og Vinstri grænna þá er kannski rétt að koma að þeim seinna. Það vekur samt athygli mína sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, sem er fulltrúi Vinstri grænna í menntamálanefnd, segir í sínu áliti. Þar er lagt til að frumvarpið verði fellt. Hv. þingmaður leggur sem sagt til að Tækniháskólinn verði sameinaður Háskóla Íslands. Það er eins og ein ágæt sjónvarpsstjarna fyrri ára Marteinn Mosdal sagði, en hann var á svipaðri skoðun og hv. þingmaður. Hann vildi hafa einn ríkisháskóla, hann vildi hafa ríkið í öllu og það vilja Vinstri grænir, hafa ríkisrekstur á öllu. Ef það er eitthvað „einka“ þá er það bannað. Það að sameina þessa skóla í einn er ekki nokkur leið eða að það geti verið einkarekstur í skólastarfsemi á Íslandi. Það á að vera bannað. (Gripið fram í: Hvar var þetta?) Sjón er sögu ríkari og væntanlega gerir hv. þingmaður okkur grein fyrir þessu í nefndarálitinu en við ræðum það seinna.

Þegar maður les síðan nefndarálitið frá Samfylkingunni þá veit maður ekki hvort maður er að koma eða fara. En samt er undirtónninn þar hinn sami, að vilja hafa einn ríkisháskóla í tækninámi á Íslandi. (BjörgvS: Það er rangt.) Ég ætla bara, hv. þm. Björgvin Sigurðsson, að vitna í þetta seinna þegar þú ert búinn að lesa þetta. Ég held að það sé mjög gott fyrir þingmenn og aðra sem á hlusta að leggja vel við hlustir þegar þú ferð yfir þetta nefndarálit.