131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:43]

Frsm. 1. minni hluta menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti 1. minni hluta menntamálanefndar vegna afnáms laga um Tækniháskóla Íslands. Ég mun einnig kynna hér breytingartillögu við frumvarpið sem við í 1. minni hluta, sá sem hér stendur og hv. þingmenn Mörður Árnason og Katrín Júlíusdóttir, flytjum. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„1. Við bætist ný grein, 3. gr., svohljóðandi:

Við 3. málsl. 3. gr. laga nr. 136/1997, um háskóla, bætist: og skulu þeir þá vera sjálfseignarstofnanir.

2. Heiti frumvarpsins verði: Frumvarp til laga um afnám laga nr. 53/2002, um Tækniháskóla Íslands, með síðari breytingum, og breyting á lögum nr. 136/1997, um háskóla.“

Þar leggjum við til að fái einkaaðilar heimild frá menntamálaráðherra til að stofna háskóla, þá skuli hann verða sjálfseignarstofnun. Þannig er tekið fyrir að um það geti verið að ræða að skólar á háskólastigi verði einkahlutafélög eins og hér er lagt til í stofnsáttmálum og samningum hæstv. menntamálaráðherra og þeirra sem skólann munu eiga samkvæmt þessu. En því miður tekur frumvarpið sem við ræðum einungis til afnáms laga um Tækniháskóla Íslands en tekur ekki til efnislegs innihalds eða inntaks hins nýja skóla. Þannig að aðkoman að málinu er svolítið snúin.

Við leggjum þessa breytingartillögu til og munum að sjálfsögðu skilyrða stuðning okkar við málið við það að sú breytingartillaga verði samþykkt við afgreiðslu málsins, þar sem tekið er fyrir það að um geti verið að ræða það eignarform sem hér er lagt til, að skólar á háskólastigi geti verið reknir sem einkahlutafélög með öllum þeim miklu göllum sem þar er á að finna þegar kemur að rekstri á skólastofnun eða slíkri opinberri þjónustu þó að formið henti ákaflega vel til reksturs ýmissa fyrirtækja. Það verður stutt í máli mínu og annarra þingmanna sem hér munu tala á eftir hvers vegna við teljum það svo óheppilegt að hafa eignarhaldið með þeim hætti og vísum sérstaklega í málflutning rektora annarra skóla svo sem Runólfs Ágústssonar, rektors Viðskiptaháskólans á Bifröst, sem finnur sjálfseignarstofnunarforminu allt til kosta og enga galla á því og er mál manna og skólasamfélagsins að það sé hið besta form til að sníða að rekstri einkarekinna háskólastofnana, sem eru að sjálfsögðu langflestar eða allar reknar að langstærstum hluta fyrir opinbert fé þó að þær hafi heimild til innheimtu skólagjalda þar ofan á. Það mun ég kynna betur á eftir.

Helstu atriðin sem við tókum til við umræðuna í nefndinni og verða kynnt hér í 2. umr. voru í fyrsta lagi afdrif frumgreinadeildarinnar sem er mjög nauðsynlegt og merkilegt fyrirbæri við Tækniháskóla Íslands og hefur skilað miklum árangri og mörgum iðnaðarmönnum inn í frekara nám.

Þá tökum við á því og ræðum að nám í tæknifræði standi einungis til boða í einkareknum skóla gegn skólagjöldum. Þá var ítarlega farið út í það af okkar hálfu að aðrir sameiningarkostir voru ekki skoðaðir, en ég tek fram að ég styð það að sameiningar skóla á háskólastigi, sem við ræðum um hér og aðrar, verði skoðaðar ítarlega. Ég held að það geti orðið námi á háskólastigi til góðs sé rétt að hlutum staðið og sé það ekki eyðilagt og gert tortryggilegt eins og það mál sem við ræðum nú af hálfu hæstv. menntamálaráðherra.

Þá ræðum við rekstrarform skólanna, aðdraganda málsins og það hvernig lagt er til að skipað verði í háskólaráð þar sem stjórn hins nýja skóla eða stjórn Hástoðar verði jafnframt háskólaráð og nemendur og kennarar eigi engan fulltrúa í háskólaráði, sem er mjög ámælisvert og vinnur gegn hverju því sem kalla má akademískt frelsi til að tryggja það að raddir skólasamfélagsins sem þrífst þar inni fái komið að rekstri og mótun skólans en ekki einungis fulltrúar eigenda, sem í þessu tilfelli er einkahlutafélag.

Þá ræðum við og leggjum til að leitað verði eftir því og kostir þess kannaðir að byggja upp tækninám við opinbera skóla til hliðar við hinn nýja einkarekna þannig að nemendur hafi í fyrsta lagi val hér innan lands. Í öðru lagi verði samkeppni á milli skóla um slíkt nám þannig að nám skólanna beggja verði betra og valfrelsi nemenda ríki um nám í tæknifræðum. Síðast en ekki síst að jafnrétti til náms í tæknifræðum verði tryggt þannig að ekki verði einungis um að ræða að nemendur eigi völ á því einungis að sækja nám hér innan lands í tæknifræði við einkarekinn skóla gegn háum skólagjöldum.

Þá ætla ég að gera sérstaklega grein fyrir áliti minni hlutans.

Að mati 1. minni hluta eru skólar á háskólastigi líklega of margir og skoða ber sameiningu þeirra eða nánari samvinnu. 1. minni hluti telur það geta verið góðan kost að sameina t.d. umrædda skóla, að uppfylltum tilteknum skilyrðum, sem ég gat um hér áðan. Grundvallaratriði er að áfram verði jafnrétti til náms í tæknigreinum, að sameiningin verði til að styrkja tækninám og tryggt sé að skólastofnun, sem rekin er að stærstum hluta fyrir opinbert fé, verði ekki rekin í hagnaðarskyni heldur með það markmið eitt að bjóða upp á fyrsta flokks nám. Markmiðið er að efla nám í tæknifræðum og fjölga tæknimenntuðu fólki og því verður að standa þannig að hlutum eins og við leggjum hér til.

Enginn vafi leikur á því að við sameiningu skóla sem þessara verða til mörg tækifæri en þau nýtast ekki nema þannig sé gengið frá að jafnrétti til náms verði til staðar og stofnunin búi við skýrt og klárt akademískt frelsi. Það er vissulega jákvætt að atvinnulífið komi með fjármuni inn í menntakerfið en það má ekki verða til þess að ganga gegn áðurtöldum markmiðum, heldur til að efla þau. 1. minni hluti leggur því til þær breytingar sem hér hafa verið nefndar og verða raktar betur á eftir.

Þá verður að geta þess að ámælisvert er hve skammur tími var gefinn til umfjöllunar um málið þar sem nefndin hélt ekki fleiri fundi en raun bar vitni og hefði verið langskynsamlegast að málið hefði komið hér inn strax í haust. Ekki var fyrirhugað að afgreiða það frá þinginu fyrr en síðar en það strandar á því að að sjálfsögðu liggur þeim sem reka háskólana báða og munu reka hinn nýja sameinaða á að málið verði klárað þannig að staða þeirra sé skýr og þeirra nemenda sem þar hyggjast stunda nám og þess vegna þarf að sjálfsögðu að klára málið. Því er það ámælisvert að það hafi ekki komið fyrr inn í þingið og við haft miklu lengri tíma til að fara yfir það og í því samhengi hefði getað farið fram ítarleg skoðun af hálfu nefndarinnar og sérfræðinga á öðrum kostum á sameiningu skóla á háskólastigi. Þá er ég ekki að segja að þessi kostur komi ekki til greina, hann kemur mjög vel til greina og er að mörgu leyti mjög fýsilegur kostur til að sameina skóla, en það er sjálfsagt að aðrir kostir hafi verið skoðaðir að fullu jafnhliða og meðfram því.

Í þessu máli kemur stefnuleysi stjórnvalda í málefnum háskólastigsins skýrt fram. Brýnt er að unnin verði heildstæð stefnumótun um málefni háskólastigsins þar sem tekið er á rekstrarformi skólanna, stjórnun, tekjuöflun og inntaki. Þessu hafa menntamálayfirvöld ekki sinnt og það kemur alvarlega niður á allri umræðu um sameiningu skóla á háskólastigi, enda kostirnir ekki verið kannaðir að neinu marki og er öll meðferð málsins af hálfu stjórnvalda ákaflega yfirborðskennd. Hér er um að ræða grundvallarbreytingu á íslensku skólakerfi. Um er að ræða mál sem getur haft stórpólitískar afleiðingar. Hérna er að mörgu leyti verið að leggja til að múrar á milli faglegs sjálfstæðis og hagsmuna eigenda séu brotnir niður. Það er mjög alvarlegt mál. Þess vegna er þetta mál grundvallarbreyting á íslensku skólakerfi þar sem annars vegar er verið að taka upp í fyrsta sinn og fordæmalaust einkahlutafélag sem rekstrarform skólans og í öðru lagi verður tækninám ekki í boði fyrir íslenska nemendur nema í einkareknum skóla gegn háum skólagjöldum.

Við vinnslu málsins lagði 1. minni hluti ríka áherslu á að rekstrarformi skólans væri breytt úr einkahlutafélagi í sjálfseignarstofnun og um það fór talsverð umræða fram í nefndinni. Engin rök hafa komið fram sem styðja einkahlutafélagsform um rekstur hins nýja skóla, enda formið sniðið að rekstri í hagnaðarskyni og hefur sjálfseignarformið utan um rekstur háskóla gefist einkar vel og engin rök komið fram gegn því, eins og fram hefur komið í nýlegum skrifum og ræðum rektors t.d. Viðskiptaháskólans á Bifröst. Það er almennt mælt með því formi af íslensku skólafólki sem því hentugasta utan um rekstur skólastofnana sem ekki eru reknar í hagnaðarskyni.

Þá er það sannfæring 1. minni hluta að einkahlutafélagsformið ógni verulega sjálfstæði og frelsi skólans, en sjálfseignarstofnunarformið tryggi það aftur á móti og efli. Þess vegna flytur 1. minni hluti í tengslum við mál þá breytingartillögu sem ég gat um áðan og er breyting á 3. gr. laga um háskóla, þar sem við leggjum til að þeir einkaaðilar sem fái heimild til að stofna háskóla skuli verða sjálfseignarstofnanir. Okkar stuðningur við málið er að sjálfsögðu skilyrtur við það að Alþingi samþykki þessa breytingartillögu við frumvarpið. Þannig væri sjálfstæði og akademískt frelsi einkarekinna skóla, bæði þessa og annarra sem stofnaðir verði í framtíðinni, að fullu tryggt að okkar mati og tryggt miklu betur en hér um ræðir.

Rekstrarform hins sameinaða skóla breytist ekki að okkar mati í grundvallaratriðum þrátt fyrir ákvæði annarrar greinar stofnsáttmála Hástoðar um að allur hagnaður af rekstri skólans skuli ganga til reksturs hans að fullu en ekki verða greiddur út til eigenda, verði um hagnað að ræða. Áfram er um að ræða rekstrarform þar sem eigendur geta keypt og selt hluti sína í félaginu og engin trygging er fyrir því hverjir kunna að eignast skólann síðar meir. Ekkert virðist mæla gegn því rekstrarformi sjálfseignarstofnana og ítrekar 1. minni hluti, við sem flytjum þetta nefndarálit, áskoranir til stofnenda skólans um að breyta rekstrarforminu úr einkahlutafélagi í sjálfseignarstofnun. Það er það sem fulltrúar Samfylkingarinnar í menntamálanefnd leggja til. Samfylkingin skorar á yfirvöld menntamála og meiri hlutann á Alþingi að bregðast við og breyta fyrirhuguðum lögum um háskóla þannig að stofnendum háskóla verði skylt að þeir verði sjálfseignarstofnanir en ekki einkahlutafélög.

Annað meginatriði við sameiningu Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík snýst um að ekki verði erfiðara að komast að í tækninámi en í flestum öðrum námsgreinum á háskólastigi. Við í Samfylkingunni teljum að tækninám eigi að lúta sömu kostum og flest annað nám á háskólastigi þannig að það standi einnig til boða í opinberum skóla gegn sömu gjöldum og annað háskólanám, en ekki einungis í einkareknum skóla gegn mun hærri gjöldum en opinberu skólarnir innheimta.

Þannig tökum við í Samfylkingunni undir þær skoðanir sem komu fram í máli rektors Háskólans á Akureyri, Þorsteins Gunnarssonar, sem segir, með leyfi forseta, í umsögn um frumvarpið:

„Stefna stjórnvalda hefur verið að innheimta ekki skólagjöld af grunnnámi á háskólastigi hér á landi. Í framkvæmd hafa hins vegar verið nokkrar undantekningar á þessari stefnu. Þannig hafa stjórnvöld heimilað einkaháskólum, m.a. Háskólanum í Reykjavík og Viðskiptaháskólanum á Bifröst, að innheimta skólagjöld meðan opinberir háskólar hafa ekki þessa heimild. Með sameiningu Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands má gera ráð fyrir að þeim nemendum í grunnnámi á háskólastigi sem þurfa að greiða skólagjöld fjölgi mikið. Verði frumvarpið samþykkt standa stjórnvöld frammi fyrir því að þurfa að endurskoða stefnu skólagjalda á háskólastigi. Sú mismunun að heimila sumum háskólum að innheimta skólagjöld og öðrum ekki er óviðunandi og ógnar stöðu opinberra háskóla hér á landi gagnvart erlendum háskólum.“ Þetta segir Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri og þetta er kjarni málsins.

Hæstv. menntamálaráðherra hefur lýst því yfir og nú síðast í viðtali við Morgunblaðið að ekki standi til að heimila opinberu háskólunum að innheimta skólagjöld á grunnnám en til greina komi að veita skólunum heimild til að innheimta skólagjöld á tilteknar greinar í framhaldsnámi. Gott og vel. Ráðherrann segir að það sé ekki stefna stjórnvalda að koma til móts við það sem Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri, heldur fram. Því er ljóst að við verðum að kalla eftir skýrri stefnumótun stjórnvalda. Samfylkingin hefur ítrekað reynt að vekja upp umræðu um þessi mál af því að þarna er verið að færa stóran hluta af námsgreinum á háskólastigi inn í skólagjaldanám án þess að heildstæð umræða og stefnumótun fari fram um málefni háskólastigsins samhliða því eða á undan. Auðvitað átti á undan að ræða þessa skólagjaldastefnu til hlítar og komast að niðurstöðu þannig að þessi mismunun eigi sér ekki stað og að stjórnvöld bjóði fram úrræði þar á móti þannig að umrædd staða komi ekki upp heldur að ræða og marka ítarlega stefnumótun.

Sú skólagjaldapólitík sem hæstv. menntamálaráðherra hefur verið að reka hér á landi, t.d. með stórhækkun á innritunargjöldum í Háskóla Íslands rétt fyrir jólin kemur einnig hér fram þar sem verið er að taka stóran hluta af háskólanámi á grunnstigi og setja undir há skólagjöld án þess að nokkur umræða hafi farið fram um það á vettvangi stjórnmálanna með hvaða hætti gjaldtöku skuli háttað af námsgreinum á háskólastigi og hvaða rök eru fyrir því að mismuna námsgreinum eins og hér er gert, að ein námsgrein á háskólastigi í viðbót, tæknifræðinám, sé tekin út fyrir sviga og sett í einkarekinn skóla gegn miklu hærri skólagjöldum en opinberu skólarnir innheimta án þess að aðrir kostir séu þá boðaðir, svo sem aðgengi að tæknifræðinámi í opinberum skóla samhliða þannig að jafnrétti til náms sé tryggt. Hver niðurstaðan verður á eftir að koma í ljós. En hæstv. menntamálaráðherra hefur ekki tekið þessa umræðu og ekki síst út af þessu óskuðum við svo ítrekað eftir því við upphaf þessarar umræðu að hún færi ekki fram nema hæstv. ráðherra gæti verið við hana og skýrt sína sýn og stefnu sína í þessum málum, enda fjölda spurninga ósvarað eftir umræðu og vinnuna í nefndinni, sem lýtur að stórmenntapólitískum atriðum, spurningum er ósvarað sem lúta að rekstrarformi skóla og innheimtu skólagjalda á háskólastigi.

Við vinnslu málsins teljum við að fram sé komið skuldbindandi loforð um að nám í frumgreinadeild verði áfram til staðar, en það var einn af meginþáttunum og tóku að ég held allir nefndarmenn í menntamálanefnd undir að mikilvægt væri að frumgreinadeildin yrði áfram til staðar. Við teljum að komið sé fram loforð frá þeim sem reka munu skólann um að deildin verði áfram til staðar við hinn nýja skóla og að ekki verði innheimt þar skólagjöld, enda um nám á framhaldsskólastigi að ræða. Við leggjum mikla áherslu á að þetta gangi eftir og að jafnframt verði aðfaranám á borð við tæknistúdentsnám og frumgreinadeildarnám eflt við Iðnskólann í Reykjavík og aðra verkmenntaskóla og fjölbrautaskóla í landinu.

Þá er mikilvægt að skoða kosti þess að hefja kennslu í tæknifræðum í fleiri skólum eins og við Háskóla Íslands eða verkmenntaskólana til að fjölga valkostum og efla tæknifræðinámið enn frekar. Mikilvægt er að framboð á tækninámi verði ekki fátæklegra eftir sameininguna og renni að stórum hluta í verkfræðinámið, heldur standi það áfram sem öflugt sérstakt nám við hinn nýja háskóla. Færsla líftæknigreinanna til Háskóla Íslands er fordæmi fyrir tækninámi við háskólann og ber að mati okkar í 1. minni hluta að kanna kosti þess að kenna tæknigreinar í meira mæli við Háskóla Íslands.

Við, fulltrúar Samfylkingarinnar í menntamálanefnd, lögðum mikla áherslu á að allir kostir til sameiningar yrðu skoðaðir, til að mynda sameining Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands eins og hér um ræðir, sameining Tækniháskólans við Háskóla Íslands eins og Tæknifræðingafélagið lagði til fyrr í vetur og sameining Tækniháskólans og Viðskiptaháskólans á Bifröst. Að slíkri könnun lokinni væri hægt að taka skýra afstöðu til þess hvaða sameining væri heppilegust og tryggði öflugt tækninám. Með skólanum virðist stefnt að háskólarekstri í tvenns konar formi; annars vegar Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri og hins vegar Tækniháskólinn og Háskólinn í Reykjavík. Skólarnir virðast eiga að vera jafnvígir gagnvart fjármunum úr ríkissjóði en óljóst af hálfu ríkisstjórnarinnar hvort á milli þeirra verður einhver verkaskipting. Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri eru með skyldur en sá nýi færri. Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri fái skráningargjöld, hinn talsverð skólagjöld að vild. Þess vegna leggjum við mikla áherslu á að þessir kostir verði allir skoðaðir til hlítar áður en málið verði afgreitt að lokum.

Ég nefndi í upphafi máls míns að sú undarlega tilhögun væri á skipan háskólaráðs að fulltrúar nemenda og kennara ættu þar ekki sæti. Við leggjum mikla áherslu á að fulltrúar þeirra eigi sæti í háskólaráði, en fyrir því er ekki gert ráð nú. Það teljum við áríðandi til að varðveita og efla akademískt frelsi skólans og að viðhorf samfélagsins innan lands komi mjög skýrt fram við stefnumótun og rekstur skólans. Einnig tökum við undir kröfu BHM að réttindi starfsmanna verði tryggð og gengið vandlega frá öllum lausum endum í þessu samhengi. Allur aðdragandi málsins er ámælisverður af hálfu stjórnvalda. Málið var ekki kynnt fyrir Alþingi fyrr en það var tilbúið af hálfu menntamálayfirvalda og þeirra sem reka munu hinn nýja skóla, búið var að kynna tilurð skólans og hvernig hann liti út á vettvangi fjölmiðlanna löngu áður en kom til 1. umr. á Alþingi í desember og þá einungis sem afnám laga um Tækniháskóla Íslands. Það er vondur bragur á þessu. Þetta eyðileggur og þvælist fyrir annars þörfu og góðu máli, að skoða kosti sameiningar og samvinnu skóla á háskólastigi.

Málið kom vanbúið til Alþingis, þannig að þetta annars góða mál var orðið tortryggilegt og laskað á sinni löngu leið í þingsali úr kastljósi fjölmiðlanna og fjölmiðlalekanna af hendi þeirra sem hafa með það að gera. Með framgöngu sinni hafa yfirvöld menntamála unnið sameiningunni tjón og ber að harma það. Ég tek fram að um leið og hugmyndir bárust um að skoða ætti sameiningu þessara skóla var sá sem hér stendur mjög jákvæður gagnvart því. Ég er enn þá mjög jákvæður í garð þess að einkareknir háskólar verði efldir og valkostum fjölgi á háskólastigi jafnframt því að sjálfsögðu að Háskóla Íslands sé gert hátt undir höfði og ekki sveltur til tjóns á meðan einkareknu skólarnir fái að blómstra. Báðir eiga að blómstra, hvorugur á kostnað hins. Það er því margt sem verður að breyta í málinu. Sérstaklega leggjum við áherslu á að háskólalögin breytist í þá veru sem við leggjum til þannig að allir skólar á háskólastigi verði sjálfseignarstofnanir en ekki einkahlutafélög.

Til að byggja undir þá skoðun mína, breytingartillögu og röksemdafærslu ætla ég að vitna aftur í umsögn Þorsteins Gunnarssonar, rektors Háskólans á Akureyri, með leyfi forseta:

„Í athugasemdum við frumvarpið er boðað að hinn nýi skóli verði rekinn sem einkahlutafélag. Þar er um að ræða nýmæli.“

Síðan tortryggir sá sem það skrifar að það tryggi akademískt frelsi. Þetta verður betur rætt af félögum mínum í 1. minni hluta Samfylkingarinnar á eftir þannig að ég ætla ekki að dvelja lengur við það.

Það eru margir ágallar á málinu þó þeir komi sérstaklega fram í mjög eindregnum áhyggjum yfir því að nám í tæknifræðum standi ekki til boða nema í einkareknum skóla gegn háum skólagjöldum. Þar með kemur sú annars prýðilega framtíðarsýn sem birtist í minnisblaði Guðfinnu S. Bjarnadóttur, rektors Háskólans í Reykjavík, ekki fram. Það er mjög glæsileg framtíðarsýn og undir hana tek ég og efast ekki um að þeir sem standa að stofnun hins nýja skóla hafa mjög háleit markmið og jákvæð gagnvart náminu. Til að allt gangi eftir og tryggt verði að nám í tæknifræðum eflist og styrkist þarf að búa þannig um hnúta að um sjálfseignarstofnun verði að ræða og að tæknifræðinám verði einnig til boða í öðrum skóla og opinberum.

Fram kemur í framtíðarsýn Guðfinnu Bjarnadóttur, með leyfi forseta:

„Það er hagsmunamál þjóðarinnar að fjölga nemendum í tækni- og verkfræðigreinum. Með því að auka framboð verkfræðigreina á helstu vaxtarsviðum má ætla að hægt verði að fjölga í þeim hópi sem stefnir í slíkt nám. Líklegt er að tímabundnar sveiflur verði í spurn eftir tilteknum námsbrautum og er þá mikilvægt að uppbygging náms og starfsemi sé sveigjanleg og geti tekið mið af slíkum sveiflum án þess að vegið sé að gæðum námsins.

Stjórnendur hins nýja háskóla hafa umtalsverða reynslu af rekstri og stjórnun háskóla, rannsóknarstofnana og fyrirtækja og gera sér fulla grein fyrir nauðsynlegum rekstrarforsendum slíkrar starfsemi. Þess ber að geta að í uppbyggingu hins nýja háskóla er hámörkun hagnaðar ekki markmið og verður hugsanlegur rekstrarafgangur því nýttur til frekari uppbyggingar starfseminnar.

Það er hinum nýja háskóla og hagsmunaaðilum hans afar mikilvægt að hann geti hafið formlegt starf og kynnt námsframboð hið fyrsta. Þetta á meðal annars við um núverandi nemendur og starfsmenn, ásamt verðandi nemendum skólans. …

Þjóðfélagið mun taka örari breytingum á næstu árum. Það verður okkur nauðsynlegt að stefna ákveðið í átt til umhverfis þar sem þekking, færni, hugvit og verk- og tæknimenntun verður undirstaða góðra lífskjara. Nýr háskóli hefur þar hlutverki að gegna.“

Undir framtíðarsýnina og markmiðin tek ég heils hugar og mjög eindregið. Þetta er einmitt markmiðið með því að skoða sameiningu skóla á háskólastigi og skoða að sameina Tækniháskóla Íslands á þeim fáu árum sem liðin eru frá raunverulegri stofnun hans. Ég tel að þau markmið séu í hættu og uppnámi verði rekstrarform skólans ekki með þeim hætti að um sjálfseignarstofnun verði að ræða en ekki einkahlutafélag og að tryggt verði til framtíðar að nám í tæknifræðum verði einnig til boða í opinberum skóla gegn þeim gjöldum sem innheimt eru við þá skóla.

Þetta eru grundvallaratriði í allri umræðunni og þessar áhyggjur og aðrar koma einnig nokkuð skýrt fram í ýmsum nefndarálitum og greinum sem hafa verið skrifaðar í aðdraganda og á meðan vinnan hefur staðið yfir. Til að mynda kom umsögn frá Iðnnemasambandi Íslands þar sem tekið er undir kröfu okkar um að algerlega ótækt sé að fulltrúi nemenda eigi ekki sæti í hinu nýja háskólaráði og hins nýja sameinaða skóla. Þar segir: „Nemendur eru það afl sem má ekki gleyma við mótun og rekstur skólans.“

En aftur að upphafinu, virðulegi forseti.

Harma ber að umræðan fari fram í þeim skugga sem hvílir á henni vegna fjarveru hæstv. menntamálaráðherra. Gangi þetta eftir er um stórpólitíska breytingu á menntakerfinu að ræða hvað varðar aðgengi að námi, skólagjöld og rekstrarform á háskólum. Það er mjög einkennilegt að fyrirkomulag þingsins skuli vera með þeim hætti og fjarvistir ráðherra með þeim hætti að ekki sé hægt að tryggja að hæstv. menntamálaráðherra sé við umræðuna í svo stórpólitísku og mikilvægu máli. Að sjálfsögðu er málið á forræði menntamálanefndar. Að sjálfsögðu er það á forræði þingsins, en það er einkennilegt að hæstv. menntamálaráðherra skuli sjá sér fært að vera ekki við umræðuna og óviðunandi að umræðan skuli fara fram og málið jafnvel afgreitt sem lög frá Alþingi, ef svo fer sem horfir, án þess að hæstv. menntamálaráðherra komi neitt í þá stórpólitísku umræðu sem geisar um málið, því málið hefur að sjálfsögðu tekið á sig nýjar myndir í meðförum nefndarinnar. Ýmsum spurningum hefur verið svarað, öðrum er ósvarað og nýjar hafa kviknað. Það er því mjög eðlilegt og nauðsynlegt að æðsti yfirmaður menntamála sé við umræðuna þar sem pólitísk markmiðasýn hennar er að ná í gegn. Frumkvæðið að þessu, eins og kynnt var í fjölmiðlum, kom frá þeim sem reka Háskólann í Reykjavík, Verslunarskóla Íslands og menntamálayfirvöldum, þannig að það er mjög undarlegt að málið skuli rætt út og afgreitt frá Alþingi án þess að hæstv. menntamálaráðherra skýri þau sjónarmið og þær mörgu menntapólitísku efasemdir sem hafa kviknað við meðferð málsins í nefndinni.