131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[16:11]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að fagna þeirri nýbreytni í umræðunni í dag að þingmenn stjórnarandstöðunnar eru farnir að fjalla efnislega um málið. Umræðan hefur fram að þessu verið sérstaklega ómálefnaleg og ómakleg í garð hæstv. menntamálaráðherra og ekki síst þess hæstv. ráðherra sem hefur komið sem staðgengill hennar.

Því er haldið fram að í málinu sé svokölluðum stórmenntapólitískum spurningum ósvarað og að málið sé allt hið óskýrasta. Ég verð að segja, eftir að hafa hlustað á ágæta ræðu hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar, að ýmsum spurningum sem vakna við lestur nefndarálits 1. minni hluta menntamálanefndar var ekki svarað. Þess vegna langar mig til að varpa fram tveimur spurningum til hv. þingmanns.

Í fyrsta lagi segir í nefndarálitinu að 1. minni hluti telji það geta verið góðan kost að sameina háskóla að uppfylltum tilteknum skilyrðum og nauðsynlegt kunni að vera að kanna sameiningu skóla á háskólastigi. Hins vegar er hvorki tekið af skarið um það í nefndarálitinu né í ræðu hv. þingmanns áðan hvort þeir sem skrifa undir nefndarálitið, hv. þingmenn Björgvin G. Sigurðsson, Mörður Árnason og Katrín Júlíusdóttir, og flokkur þeirra, Samfylkingin, styðji þá sameiningu sem lögð er til að verði leidd í lög.

Styður Samfylkingin sameiningu Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík eða ekki?