131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[17:07]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það vekur óneitanlega mikla athygli að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir og sá flokkur sem hún tilheyrir, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, leggur til að frumvarp þetta verði fellt og leggst þar með gegn sameiningu þeirra tveggja skóla sem um er að ræða. Það er athyglisvert í ljósi þess að bæði kennarar, aðstandendur og nemendur skólanna eru mjög ánægðir með þá sameiningu sem stendur fyrir dyrum. Það er einkennilegt að stjórnmálaafl eins og Vinstri hreyfingin – grænt framboð ætli sér að leggja stein í götu þessa fólks, fólks sem vill mennta sig og afla sér þekkingar til framtíðar á ákveðnum forsendum og ákveðnum grundvelli. Nei, Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill fara allt aðrar leiðir og neitar að svara kalli þessa fólks.

Ég ætlaði að víkja að tveimur atriðum í nefndaráliti 2. minni hluta menntamálanefndar. Ég kem að fyrra atriðinu og ég vík þá að því síðara í seinna andsvari mínu. Í álitinu segir, með leyfi forseta:

„Annar minni hluti er ekki sannfærður um að reynt hafi verið til þrautar að sameina THÍ og verkfræðideild Háskóla Íslands.“

Hv. þingmaður Kolbrún Halldórsdóttir fór yfir þetta í ræðu sinni og ég gat ekki skilið hana betur en svo að hennar stefna og stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs væri sú að hér á Íslandi ætti bara að starfa einn ríkisrekinn háskóli og einkaaðilar að éta það sem úti frýs. Ég bið hv. þingmann að leiðrétta mig ef þetta er rangur skilningur. Ég hef skilning á því að menn hafi þessar pólitísku skoðanir (Forseti hringir.) en ég er ósammála þeim. Er þetta réttur skilningur, hv. þingmaður?

(Forseti (JBjart): Forseti beinir því til hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar að virða tímamörk í umræðunni.)