131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[18:56]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég fagna því að þetta er ekki skoðun hv. þingmanns og kannski eru þá fleiri í meiri hluta menntamálanefndar sem ekki hafa þessa skoðun.

Um hið fyrra atriði þá er það auðvitað stórmerk yfirlýsing sem hér er staðfest í ræðustóli, að þingmaðurinn telur, sem er hluti af meiri hluta menntamálanefndar, að það eigi að stefna að tæknifræðinámi í ríkisháskóla. Það er skoðun sem við höfum ekki heyrt áður í nefndinni og ekki hefur heyrst áður á þinginu að þetta sé afstaða þingmannsins og þá væntanlega Framsóknarflokksins í nefndinni og á þinginu. Ég lít svo á að þetta séu í raun og veru ákveðin tímamót í umræðu um málið, vegna þess að það er þá eðlilegt að spyrja hv. þingmann og Framsóknarflokkinn, sem er ekki síður virtur, hvernig hún hyggist ganga frá þessu máli í tengslum við afgreiðslu þessa frumvarps, hvort til standi að leggja fram breytingartillögu á einhverju stigi við afgreiðslu málsins, eða með hvaða hætti Framsóknarflokkurinn hyggist reka þetta mál áfram.

Ég verð að lýsa því yfir fyrir hönd okkar samfylkingarmanna, og ég gerist svo djarfur að gera það fyrir hönd allrar stjórnarandstöðunnar, að við erum reiðubúin til viðræðna við Framsóknarflokkinn og hv. þingmann um þetta efni. Ég tel að við ættum þá að ræða það að fresta afgreiðslu frumvarpsins um nokkra daga þangað til við höfum komið okkur niður á það að koma þessu í verk, þannig að fólki geti gefist kostur á, eins og við höfum verið að segja allan tímann og virðist vera skoðun Framsóknarflokksins núna, tæknifræðinámi á Íslandi annars staðar en í skóla sem ágætur verður örugglega en er rekinn af einkahlutafélagi og með skólagjöldum.