131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Réttur foreldra vegna veikinda barna.

139. mál
[12:10]

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er oftar sem maður kemur í ræðustólinn til að skamma hæstv. ráðherra en að hrósa þeim en ég vil óska hæstv. ráðherra til hamingju með þau skref sem hafa verið stigin og þá samþykkt sem ríkisstjórnin hefur gert og jafnframt hrósa hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem hefur verið einlægur baráttumaður fyrir bættum réttindum foreldra vegna veikinda barna.

Mig langar þó að varpa spurningu til hæstv. ráðherra varðandi rétt foreldra sem eiga börn sem hafa ánetjast fíkniefnum og þurfa á mikilli umönnun að halda og jafnframt rétt beggja foreldra til að fá styrk sem þurfa að fara með börn sín utan í læknaaðgerðir. Það skiptir miklu máli að réttur þeirra sé líka skoðaður sérstaklega, því hingað til hefur siglinganefnd aðeins samþykkt greiðslur vegna annars foreldris þegar nauðsynlegt er að báðir fari. Eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra skiptir miklu máli að báðir foreldrar geti tekist á við vandann.