131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja.

499. mál
[12:29]

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég hygg að mörgum hafi brugðið illilega í brún þegar héraðsfréttablaðið Fréttir sem kemur út í Vestmannaeyjum greindi frá því á forsíðu þann 13. janúar sl. að skurðstofunni við Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja yrði lokað í sumar í einar sex vikur. Þetta stóð til að gera vegna fjárskorts. Talað var um að það vantaði á bilinu 10–12 millj. til að hægt yrði að halda skurðstofunni opinni í þessar vikur.

Á sama tíma bárust okkur fréttir af því að svokölluð G-II vakt við heilbrigðisstofnunina yrði lögð niður frá áramótum, sennilega einnig vegna fjárskorts. Þetta voru hvort tveggja mjög alvarleg tíðindi því að eins og allir vita eru allsérstakar aðstæður í Vestmannaeyjum. Hvers vegna skyldi það vera? Jú, Vestmannaeyjar eru eyjar og búa því ekki við sömu möguleika til samgangna og við sem erum á hinni stóru eyju Íslandi, ef svo má segja, uppi á fastalandinu eins og menn orða það gjarnan. Ef eitthvað ber út af í Vestmannaeyjum og skurðstofan er lokuð geta menn fljótlega lent í vondum málum því að þá eru þeir háðir samgöngum til að geta leitað læknishjálpar. Þetta ætti að vera augljóst öllum sem skoða það mál.

Það væri líka mjög alvarlegt ef bakvaktir á heilsugæslustöðinni væru ekki lengur fyrir hendi því að vakthafandi læknar geta þurft að fara frá í neyðartilvikum, til að mynda í sjúkraflug eða til að sinna öðrum verkefnum. Það geta orðið slys. Ef þeir þurfa að fara úr bænum er hann varnarlaus á meðan hvað varðar möguleika á því að geta kallað til lækni eins og fyrirkomulagið lítur út með þessum hætti, þ.e. að bakvaktin sé ekki fyrir hendi. Þetta er að sjálfsögðu algjörlega óverjandi og ég hygg að hæstv. heilbrigðisráðherra sé mér sammála í þessu.

Í ljósi þessara atriða hef ég lagt eftirfarandi fyrirspurn fyrir hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja:

Hyggst ráðherra grípa til einhverra aðgerða til að koma í veg fyrir að skurðstofu Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja verði lokað í a.m.k. sex vikur í sumar?

Hyggst ráðherra sjá til þess að svokölluð G-II bakvakt heilsugæslulækna við stofnunina, sem felld var niður um síðustu áramót, verði tekin upp að nýju?