131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja.

499. mál
[12:37]

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra fyrir mjög skýr og góð svör áðan. Að sjálfsögðu verður skurðstofunni ekki lokað og það kom mjög skýrt fram í máli hæstv. ráðherra. Við, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, vorum á ferð í Vestmannaeyjum í síðustu viku, komum við á sjúkrahúsinu og fórum yfir stöðuna með starfsmönnum stofnunarinnar. Það kom fram eins og hjá hv. þm. Guðjóni Hjörleifssyni að það er mjög aðkallandi að ljúka skurðstofuganginum. Það fer ekkert á milli mála að skurðstofa verður að vera starfrækt allt árið í Vestmannaeyjum. Það gerir sérstaða Vestmannaeyja og öryggi íbúanna þar.