131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Erfðabreytt aðföng til landbúnaðar.

404. mál
[12:42]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. landbúnaðarráðherra um hvað líði reglugerð um erfðabreytt efni í fóðri samkvæmt nýlegri tilskipun Evrópusambandsins. Svarið liggur að hluta til fyrir í svari frá hæstv. umhverfisráðherra vegna fyrirspurna hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur um erfðabreytt matvæli. Þetta er ein af þeim tilskipunum og reglum frá Evrópusambandinu sem deilist á fleiri en eitt ráðuneyti hér. Umhverfisráðuneytið fer að hluta til með tilskipun um merkingar á erfðabreyttum lífverum en landbúnaðarráðuneytið með eftirlit með erfðabreyttu fóðri. Í svari hæstv. umhverfisráðherra kemur fram að sú reglugerð sem vísað er hér til frá 2003, um erfðabreytt matvæli og fóður, og reglugerð Evrópusambandsins nr. 1830/2003, um rekjanleika og merkingu erfðabreyttra lífvera og rekjanleika matvæla og fóðurs sem framleitt er úr erfðabreyttum lífverum, tóku gildi hjá Evrópusambandinu 18. apríl 2004. Það er verið að vinna að upptöku hlutaðeigandi reglugerða og setja þetta í íslenskar reglugerðir.

Þar sem reglur Evrópusambandsins og vinnan samkvæmt þessu fer einnig yfir til landbúnaðarráðuneytisins finnst mér mikilvægt að hæstv. landbúnaðarráðherra upplýsi hér frekar hvað þessari vinnu líður. Í svari til mín á 128. löggjafarþingi varðandi innflutning á erfðabreyttu fóðri lýsir hann því að ekkert eftirlit sé með erfðabreyttu fóðri og það sé ljóst að fóður sem kemur frá Bandaríkjunum sé erfðabreytt. Prufur hafa verið teknar úr því og það liggur fyrir að maís og sojamjöl sem kemur frá Bandaríkjunum sem er uppistaðan í því fóðri sem notað er til svína- og kjúklingaræktar kemur erfðabreytt frá Bandaríkjunum. Mér finnst því mikilvægt, miðað við þá undirbúningsvinnu sem nú er í gangi, að framleiðendur í matvælaiðnaði séu upplýstir um þessar fyrirhuguðu breytingar til þess að þeir geti lagað sig að breyttum framleiðsluháttum.