131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Erfðabreytt aðföng til landbúnaðar.

404. mál
[12:45]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður spyr: Hvað líður reglugerð um erfðabreytt efni í fóðri samkvæmt nýlegri tilskipun Evrópusambandsins?

Evrópuþingið og ráðið hafa sett tvær reglugerðir sem teknar verða upp hér á landi varðandi erfðabreytt fóður. Þetta er í fyrsta lagi reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2003/1829/EB, um erfðabreytt matvæli og fóður. Reglugerðin leggur grunninn að vörnum gegn hættum sem mögulega geta skapast við notkun á erfðabreyttum lífverum og afurðum þeirra í matvælum og fóðri. Hún setur ákvæði um leyfisveitingu, stjórnun og merkingu erfðabreyttra matvæla og fóðurs.

Í öðru lagi er reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1830/2003, um rekjanleika og merkingar á erfðabreyttum lífverum og rekjanleika á matvæla- og fóðurvörum sem framleiddar eru af erfðabreyttum lífverum og breytingu á tilskipun 2001 nr. 18 frá Evrópusambandinu, um sleppingu erfðabreyttra lífvera út í umhverfið og markaðssetningu þeirra. Reglugerð 1830/2003 leggur grunn að rekjanleika efna sem innihalda erfðabreyttar lífverur og rekjanleika matvæla og fóðurs sem framleidd eru úr erfðabreyttum efnum með það í huga að auðvelda merkingu þeirra og fylgjast með áhrifum þeirra á heilbrigði manna og dýra og á umhverfið. Einnig eru ákvæði um áhættustjórnun og stöðvun á sölu ef ástæða þykir til. Gerð er breyting á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001 nr. 18, um misvísandi sleppingu á erfðabreyttum lífverum í umhverfið — tilskipun 2001 nr. 18 hjá Evrópusambandinu fellur undir XX. viðauka EES-samningsins og er því á ábyrgð umhverfisráðuneytisins.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur einnig sett tvær neðangreindar reglugerðir varðandi framkvæmd einstakra ákvæða í ofangreindum reglugerðum. Þær verða einnig teknar upp hér á landi strax og þær hafa verið teknar upp í EES-samninginn, í fyrsta lagi reglugerð framkvæmdastjórnarinnar EB nr. 65/2004, um uppsetningu á kerfi til þróunar og úthlutunar á sérstökum auðkennum fyrir erfðabreyttar lífverur. Reglugerðin fjallar um að setja sérstök einstök auðkenni fyrir hverja erfðabreytta lífveru sem skráð er og heimiluð á ESB/EES-svæðinu óháð því hvenær heimildin var gefin út. Henni er m.a. ætlað að auðvelda rekjanleika erfðabreyttra efna.

Önnur reglugerð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er nr. 641/2004, um nákvæmar reglur varðandi framkvæmd reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins, nr. 1829/2003, um erfðabreytt matvæli og fóður. Reglugerðin setur nánari reglur varðandi framkvæmd ákvæða, svo sem um leyfisveitingu, stjórnun og merkingu erfðabreyttra matvæla og fóðurs, í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1829/2003, um erfðabreytt matvæli og fóður.

Hæstv. forseti. Fyrir liggja undirbúningsdrög að ákvörðun um upptöku þessara reglugerða í EES-samninginn sem til stendur að leggja fyrir sameiginlegu EES-nefndina í Brussel. Samkvæmt ofanskráðu munu þessar reglur taka gildi hér á landi strax og þær hafa verið teknar í EES-samninginn og þær verða birtar í Stjórnartíðindum strax og þær hafa verið þýddar á íslensku. Aðfangaeftirlitið mun sjá um eftirlit með því að reglunum verði framfylgt varðandi fóður.