131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Þjónustutilskipun Evrópusambandsins.

282. mál
[13:42]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég fagna yfirlýsingum hæstv. forsætisráðherra. Hann — hæstv. utanríkisráðherra. Hann er ekki einn um þetta, hæstv. ráðherrann, að ruglast í ríminu. (Gripið fram í.) Ég tel að þessar yfirlýsingar séu mjög mikilvægar. Í fyrsta lagi leggur hæstv. ráðherra áherslu á að Íslendingar eigi jafnan að kanna möguleika til undanþágu frá þeim tilskipunum sem Evrópusambandið samþykkir. Ég minni á að um það urðu talsverðar deilur á sínum tíma, þótt við værum í minni hluta miklum í því efni, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, að leita undanþágu varðandi raforkuna. Þetta var fyrsta atriðið.

Hitt sem fram kom í máli hæstv. ráðherra var að Íslendingar hljóti jafnan að skoða sína hagsmuni áður en tilskipanir frá Evrópusambandinu eru samþykktar. Ég skil það svo að um samþykkt af þessu tagi, tilskipun af þessu tagi, hljóti slíkt að koma til álita. Síðan geri ég mér fyllilega grein fyrir því að um þetta tiltekna mál erum við hæstv. ráðherra eflaust á öndverðum meiði. Við höfum ekki sama pólitíska skilning eða sömu pólitísku sýnina á málin hvað þetta snertir.

En ég vil hvetja til þess að við gerumst ekki fórnarlömb slíkrar nauðhyggju þegar Evrópusambandið er annars vegar að við hættum að hugsa sjálfstætt um hagsmuni Íslands. Það hefur því miður allt of oft gerst og einkennir afstöðu margra þingmanna og jafnvel heilla þingflokka þegar Evrópusambandið er annars vegar. Ég tel að sú tilskipun sem hér um ræðir, þjónustutilskipunin, vegi að sjálfum grundvelli velferðarsamfélagsins og ég vil vekja athygli á því að ég er ekki einn um að hvetja til þess að aðildarríki EES-samningsins beiti neitunarvaldi (Forseti hringir.) ef reynt verður að þröngva henni í gegn. Það gerði forseti norska alþýðusambandsins Gerd Liv Valla hinn 1. maí (Forseti hringir.) á síðasta ári. Hún krafðist þess að norska (Forseti hringir.) ríkisstjórnin mundi beita neitunarvaldi ef til þess kæmi.

(Forseti (GÁS): Forseti vill biðja hv. þingmenn um að taka ekki upp ný efnisatriði þegar tímanum er lokið.)