131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Flutningur bandaríska sendiráðsins í Reykjavík.

447. mál
[13:46]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Eins og kunnugt er hafa Bandaríkjamenn tekið ákvörðun um það á síðustu árum að sendiráð þeirra um heiminn þurfi að verjast árás betur en áður var. Öryggisgæsla hefur þess vegna verið aukin mjög í sendiráðunum og nágrenni þeirra í samstarfi við heimamenn á hverjum stað og viðbúnaður við sendiráðin er nú víða eins og um sé að ræða hernaðarmannvirki.

Okkur ber að sýna þessari afstöðu Bandaríkjamanna fullan skilning og aðstoða þá eftir megni við að tryggja fullt öryggi í sendiráðunum og í nágrenni þeirra. Hér í Reykjavík háttar svo til að sendiráð Bandaríkjanna er í miðju grónu íbúðarhverfi í Þingholtunum og íbúar þar í kring í miklu nágrenni við sendiráðshúsið til allra hliða. Ýmislegar öryggisráðstafanir valda íbúum í hverfinu þess vegna bæði óþægindum og ama. Íbúarnir deila líka áhyggjum sendiráðsmanna af hugsanlegum atburðum sem kynnu að kvikna við sendiráðið og spyrja um sitt eigið öryggi við slíkar kringumstæður. Ég er með bréf frá íbúunum til borgaryfirvalda um þetta mál frá því í fyrra og get lesið úr því ef menn vilja.

Þess vegna hafa vaknað spurningar um það hvort ekki sé heppilegt að flytja þetta sendiráð á hentugri stað í borginni. Ég veit að hjá Reykjavíkurborg eru menn reiðubúnir til hverrar þeirrar aðstoðar sem æskt yrði og það er einnig ljóst að sendiherrann og starfsmenn hans vilja finna lausn á þessu máli og búa í friði og sátt við granna sína. Hins vegar virðist skorta skilning á þessu eða þetta mál er ekki ofarlega í forgangsröðinni í utanríkisráðuneyti Bandaríkjamanna í Washington. Þess vegna spyr ég hæstv. utanríkisráðherra um atbeina hans við það að fá Bandaríkjastjórn til að íhuga annan og hentugri stað fyrir sendiráð sitt í Reykjavík en nú er.