131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Flutningur bandaríska sendiráðsins í Reykjavík.

447. mál
[13:48]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda hefur bandaríska sendiráðið verið mjög lengi á þessum stað, allt frá því 1942 í þessu húsi. Auðvitað hafa menn horft til þess, ekki bara á síðustu tímum heldur löngu fyrr, að þessi staðsetning fyrir svo veigamikið sendiráð væri ekki lengur heppileg. Ég get nærri um þetta talað vegna þess að í minni tíð sem borgarstjóri í Reykjavík höfðum við náð samkomulagi um það, ég sem borgarstjóri fyrir hönd borgaryfirvalda og þáverandi sendiherra Bandaríkjanna, Marshall Brement, að Bandaríkin fengju lóð þar sem nú er Háskólinn í Reykjavík, þ.e. á svæðinu sunnan við Morgunblaðslóðina, til að byggja nýtt sendiráð. Ég lagði áherslu á það við sendiráðið að það væri augljóst að þessar lóðir væru að hverfa og ef þeir mundu ekki þiggja þessa lóð mundi hún fara undir aðra starfsemi. Og það væri ekki auðvelt að finna lóð jafngóða þessari fyrir sendiráð.

Marshall Brement, þáverandi sendiherra, var mjög hlynntur þessu, hafði fengið góðan stuðning í þáverandi utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna og þetta leit allt vel út þar til sprengjuárásir urðu á sendiráð Bandaríkjanna, ég hygg að það hafi verið í Kúveit og jafnvel á fleiri stöðum í Austurlöndum nær. Það varð til þess að þetta mál þokaðist langt niður eftir framkvæmdalistanum og þar með misstu Bandaríkjamenn af þessari lóð sem ég held að hafi verið mikill skaði fyrir þá og fyrir borgaryfirvöldin en við höfðum náð saman um þetta á þessum tíma.

Síðan tel ég að allir þeir atburðir sem hafa orðið og nauðsyn þess að veita rýmri friðhelgi í kringum sendiráð, ekki bara hér á landi heldur annars staðar — við sjáum þetta til að mynda í Lundúnum þar sem bandaríska sendiráðið er eiginlega víggirt inni í miðri Lundúnaborg — geri það að verkum að hafi þessi staðsetning verið orðin erfið að áliti manna fyrir 15–20 árum er hún það enn þá frekar nú. Þarna er ekki hægt að hafa eðlilega umferð eða aðgengi að þessari tiltölulega þröngu íbúðargötu lengur.

Ég er þeirrar skoðunar og mun fyrir mitt leyti stuðla að því að svo miklu leyti sem það veltur inn á mitt borð að takast megi að finna lausn á þessu máli sem sé öllum aðilum hagstæð. Í þessu tilfelli er það engum manni til hagsbóta að sendiráðið sé staðsett áfram þar sem það er.