131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Flutningur bandaríska sendiráðsins í Reykjavík.

447. mál
[13:50]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svörin og þann fulla skilning sem hann sýnir á þessu vandamáli. Ég hygg að við gerum það öll. Þá er held ég að því komið að hæstv. utanríkisráðherra beiti sér í málinu með beinum hætti því að eftir mínum athugunum og lítils háttar rannsóknum á þessu stendur fyrst og fremst á fjárveitingum frá Bandaríkjamönnum og þar með raunverulegum áhuga utanríkisráðuneytisins í Washington á þessu efni. Það verður ekki leyst öðruvísi því að ekki förum við að setja fé í þessa sjóði. Það er ekki fyrirstaða, veit ég, hjá borgaryfirvöldum við að greiða úr þessum málum eins og hægt er. Eins og ég sagði áðan hafa sendiherrann og starfsmenn hans sýnt vilja til lausnar á þessu.

Ég held að málið sé þannig að hér verði hæstv. utanríkisráðherra að beita sér og svo vill til að hann er persónulega kunnugur núverandi húsbónda eða húsfreyju í bandaríska utanríkisráðuneytinu. Ég hvet hann til þess í fullri alvöru og með hagsmuni íbúa í Þingholtunum og Reykvíkinga allra fyrir augum að setja þetta mál á viðræðuskrá við sinn mann í Washington.