131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Samgöngur milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins.

451. mál
[14:35]

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Það er mikilvægt að velta fyrir sér ferðatímanum á milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar, sérstaklega með það í huga að ég held að engum dyljist að flug til Reykjavíkurflugvallar mun með tímanum færast yfir á Keflavíkurflugvöll og innanlandsflugið þar með. Það er því mikilvægt fyrir landsbyggðarfólk að ökutíminn milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar verði sem stystur og eftir að búið er að tvöfalda Reykjanesbrautina hljótum við aðallega að þurfa að beina augum okkar að leggnum frá Reykjavík og suður fyrir Hafnarfjörð, því oft á tíðum er þar mesti flöskuhálsinn. Eftir að komið er suður fyrir Hafnarfjörð og á tvöfalda Reykjanesbraut hef ég ekki miklar áhyggjur af því að sú umferð gangi ekki greiðlega og vona því að menn skoði með hvaða hætti verður fljótlegast að koma umferðinni frá höfuðborgarsvæðinu og suður fyrir Hafnarfjörð með það í huga að innanlandsflug mun örugglega færast til Keflavíkur þegar tímar líða.