131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Samgöngur milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins.

451. mál
[14:40]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir greið svör við fyrirspurn minni. Umræðan hefur teygt sig víða og þó einkum þangað sem fiskurinn lá undir steininum, sem er auðvitað flugvellirnir tveir, í Reykjavík og í Keflavík.

Ég held að Reykjavíkurflugvöllur sé á förum hvað sem menn vilja og að það sé ósköp einfaldlega buddan sem mun endanlega reka okkur til þess að finna lausn á málinu því ég spái því að menn þoli það ekki á Alþingi eða annars staðar þar sem farið er með fé almennings að menn ætli að borga fyrir mjög dýra þjónustu á tveimur flugvöllum með ekki nema nú 39 mínútna millibili.

Vel kemur hins vegar til greina, eins og stundum er í borgum, að hafa einhverja flugbraut, ég segi nú ekki í Vatnsmýrinni en einhvers staðar í nágrenninu þar sem hentugt er og menn geta sætt sig við, sem hleypi þeim flota til Reykjavíkur sem mest kvarta undan Keflavíkurvinklinum, þ.e. stjórnmálamönnum, forustumönnum í sveitarstjórnum og forstjórum í fyrirtækjum. Það yrði eins og City-flugvöllurinn í London sem ég var nýverið að skoða, þ.e. London en ekki flugvöllinn, en sá þá City-flugvöllinn á kortinu.

Ég vil byrja á því að hrósa hæstv. samgönguráðherra fyrir lofsverða frammistöðu í málefnum Reykjanesbrautar eða Keflavíkurvegar, en síðan vil ég biðja hann endilega að passa sig á því að hann og menn hans standi ekki á móti nauðsynlegum þörfum og arðbærum umferðarbótum milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur vegna ástar sinnar á þeim flugvelli sem Bretar settu hér niður í óþökk Íslendinga í heimsstyrjöldinni síðari.