131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Flugsamgöngur til Ísafjarðarbæjar.

507. mál
[14:44]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Herra forseti. Fyrir nokkru átti ég erindi til Ísafjarðar sem í sjálfu sér er ekki í frásögur færandi. Fyrirhugaðan brottfarardag var flugi aflýst, næsta dag var hins vegar flogið vestur í fínu veðri en þegar kom yfir Skutulsfjörð var þar yfir él. Sveimað var inn Djúp og aftur til baka en án árangurs svo að snúa þurfti til Reykjavíkur aftur. Flugvélin var full af fólki sem allt var að missa úr í vinnu eða eyða tíma til einskis vegna þess að ekki var hægt að lenda á Ísafirði.

Ég hef lent á Þingeyrarflugvelli og veit að þar eru aðstæður að mörgu leyti ákjósanlegri fyrir flugsamgöngur en á Ísafirði þótt að vísu sé lengra í aðalþéttbýlið, þ.e. til Ísafjarðar. Ég ákvað því að leggja nokkrar spurningar fyrir hæstv. samgönguráðherra en þegar spurningarnar voru komnar fram kom í ljós að mun meira gæti hangið á spýtunni en einungis að byggja varaflugvöll fyrir Ísafjarðarflugvöll.

Úrbætur á Þingeyrarflugvelli gætu tryggt samgöngur allan sólarhringinn sem að sjálfsögðu er gífurlegt öryggisatriði en nú er aðeins hægt að lenda á Ísafirði í birtu og góðu skyggni. Einnig mundu úrbætur á Þingeyrarflugvelli opna fyrir möguleika á beinum flugsamgöngum við útlönd sem aftur á móti gjörbreytir möguleikum í uppbyggingu ferðaþjónustu.

Ferðaþjónusta á Vestfjörðum er eitt af því sem er því sem næst á byrjunarreit þótt svæðið hafi upp á einstaka náttúrufegurð að bjóða, víða nær óspillta af manninum. Endurbætur á Þingeyrarflugvelli eru því enn meira hagsmunamál Vestfirðinga en mig grunaði. Það verður afar fróðlegt að heyra svar hæstv. samgönguráðherra.

Spurningar mínar eru svohljóðandi:

1. Hve oft hefur flug til Ísafjarðar fallið niður sl. fimm ár, skipt niður eftir árum og mánuðum?

2. Hve oft hefur verið lent á Þingeyrarflugvelli þegar ófært hefur verið til Ísafjarðar á sama tímabili, skipt eftir árum og mánuðum?

3. Hvaða úrbætur yrði að gera á Þingeyrarflugvelli til að hann gæti að fullu þjónað sem varavöllur fyrir Ísafjarðarflugvöll og hvað yrði samfara því mikill stofnkostnaður annars vegar og rekstrarkostnaður hins vegar?