131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Flugsamgöngur til Ísafjarðarbæjar.

507. mál
[14:53]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mig rak hreinlega í rogastans þegar ég heyrði þær tölur sem hæstv. samgönguráðherra nefndi hér því að samtals hafa flugferðir á Ísafjörð fallið niður 530 sinnum undanfarin fimm ár. Í staðinn hefur verið lent á Þingeyrarflugvelli 118 sinnum á sama tímabili. Þetta eru allhrikalegar tölur, það verður að segjast, virðulegi forseti.

Það var ánægjulegt að heyra að hæstv. samgönguráðherra lýsti yfir miklum og eindregnum vilja til að fara út í þessar endurbætur á Þingeyrarflugvelli. Þetta gætu þá verið tölur eitthvað í kringum 200 millj. býst ég við, 250 millj. kannski, sem þetta mundi kosta.

Um leið og maður veltir fyrir sér umbótum á þessum flugvelli hlýtur hugurinn líka að leita til vegasamgangna. Þá hlýtur athyglin að beinast að vegasambandinu og þá má jafnvel spyrja sig þeirrar spurningar hvort ekki væri hreinlega skynsamlegra að setja frekar í forgang þverun fjarða á Barðaströndinni og jafnvel þá líka hin eftirsóttu og nauðsynlegu göng á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar.