131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Flugsamgöngur til Ísafjarðarbæjar.

507. mál
[15:01]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Vegna þess sem kom fram síðast hjá hv. fyrirspyrjanda um möguleika þess að nýta þessa flugbraut til millilandaflugs vil ég geta þess að ekki er gert ráð fyrir þeim kosti. Aðstæður eru slíkar að ekki er hægt að ná þvílíkri lengd á braut sem þyrfti nema þá fyrir vélar af þessari gerð, Fokker 50, þannig að við gerum ekki ráð fyrir þeim möguleika. Ég held líka að við Íslendingar eigum að gæta okkar á því að gera ekki ráð fyrir fjölmörgum millilandaflugvöllum, heldur tryggja fyrst og fremst innanlandsflugið og svo bættar vegasamgöngur og treysta á öflugt flug eins og við höfum í dag milli Keflavíkurflugvallar og annarra landa. Það þykir ofrausn víða í öðrum löndum þegar sagt er frá því hversu góðar flugsamgöngur við höfum frá Íslandi bæði til Evrópu og Ameríku. Staða okkar að því leyti er mjög góð.

Stóra málið er í mínum huga það að bæta flugsamgöngurnar þarna vestur þannig að Ísafjarðarflugvöllur og Þingeyrarflugvöllur verði byggðir upp sem best fyrir innanlandsflugið til hagsbóta fyrir neytendur. Það er alveg ljóst að flugrekstraraðilar hafa kostað alveg geysilega miklu til þegar verið er að fella niður flug. Það kemur fram í hærra miðaverði eins og við er að búast. Afkoma flugfélaganna hefur samt verið að batna í innanlandsfluginu, m.a. vegna bættra aðstæðna, og ég er alveg sannfærður um að þegar búið er að endurbyggja Þingeyrarflugvöllinn verður mun auðveldara að halda úti innanlandsfluginu. Það verður stöðugra, minna um að áætlun raskist sem kemur ella niður á öllu fluginu hjá viðkomandi flugfélagi.

Við erum að tala um miklar hagsbætur fyrir íbúa og fyrir ferðaþjónustuna. Það skiptir miklu máli að búa við öryggi í innanlandsfluginu og þá skiptir enn og aftur miklu máli að samstaða sé um uppbyggingu þessara flugvalla og samstaða um bætta þjónustu á suðursvæðinu.