131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Svartfugl við Norðurland.

463. mál
[15:16]

Drífa Hjartardóttir (S):

Herra forseti. Hér fara fram mjög áhugaverðar umræður sem eru ekki oft í þingsal um svona efni. Ber að fagna þeim þó að vissulega sé viðfangsefnið mjög neikvæðar fréttir í rauninni, hordauði í farfugli. Öll umhugsunin um lífkeðjuna og vistkerfið er þó góðra gjalda verð og ég tek undir með hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni að Norður-Íshafið skiptir miklu máli. Ég þakka líka hæstv. ráðherra Sigríði Önnu Þórðardóttur fyrir svör hennar og að það eigi að efla rannsóknir og vöktun sem ég tel mjög mikilvægt.

Þetta er einmitt verkefni fyrir náttúrustofur úti á landsbyggðinni, svona rannsóknarverkefni, og ég fagna því að þessi umræða er á góðu stigi á hinu háa Alþingi.