131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Svartfugl við Norðurland.

463. mál
[15:17]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er mikið umhugsunarefni, þær fréttir sem við höfum af lífríki sjávar í kringum landið. Þorskurinn er illa haldinn, ekki bara í Breiðafirði heldur víðar, og það er svartfugladauði fyrir Norðurlandi. Það sem mér er kannski mesta umhugsunarefnið — ég fagna að vísu því að hæstv. umhverfisráðherra hefur sagt frá því að hún ætli í samstarfi við Hafrannsóknastofnun og aðra aðila að sjá til þess að farið verði að skoða þessi mál betur.

Ég held að við þurfum að taka til hjá okkur vegna þess að þekkingarleitin hefur greinilega verið allt of skammt komin hvað þessa hluti varðar fram að þessu. Þann hluta sem snýr að okkar eigin stjórn á veiðum þarf auðvitað að taka til endurskoðunar sem allra fyrst. Það kann vel að vera að einmitt ákvarðanir okkar um nýtingu stofna hafi þarna verulega mikil áhrif.