131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Svartfugl við Norðurland.

463. mál
[15:18]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég þakka þessar umræður. Það fór eins og mig grunaði að menn hafa í raun og veru of lítinn tíma til að segja það sem þeir vildu segja. Kannski eigum við að ræða þetta síðar í öðru formi.

Ég vil líka þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir afar góð svör við spurningum sem auðvitað kemur í ljós að ekki er hægt að svara á núverandi stigi. Ég verð að segja að ég fagna því mjög að hún skuli hafa óskað eftir tillögum um það hvernig þessu starfi verði háttað í framtíðinni. Ég held einmitt að þessir þrír aðilar sem hún nefnir til, Náttúrufræðistofnun, Hafrannsóknastofnun og Háskóli Íslands, séu þeir aðilar innan lands sem geta fært þetta eitthvað fram. Við þurfum að vita þessa hluti og við þurfum að geta greint á milli þess sem nú kann að vera að gerast vegna loftslagsbreytinga af manna völdum og einstakra sveiflna í þessum stofnum og öðrum sem, eins og ráðherra sagði, við höfum heimildir um langt aftur í tímann.

Þær heimildir eru auðvitað mjög misjafnar. Það sem nú er að gerast er að við höfum heimildir um þetta í fyrsta lagi nokkra vetur á Íslandi og síðan höfum við þær líka á öllu hafsvæðinu. Það sem við erum að horfa á hérna er að mér sýnist málið alvarlegra en það sem áður hefur gerst og það bendir til þess að til þessa séu ekki eingöngu einhver stofnarök heldur sé þetta hlýnun sjávar almennt. Ég skal þó engu spá um það.

Ég held líka að það sé rétt hjá hæstv. ráðherra og fagna þeim skilningi hennar að við eigum að bregðast við þessum breytingum hér, bæði hinum almennu loftslagsbreytingum og auðvitað þeim breytingum sem eiga sér ekki slíkar skýringar í kringum okkur, með aukinni vöktun og ég held að við eigum að verja fé til þess úr almennum sjóðum landsmanna. Ekki er það verra ef það hjálpar atvinnulífi á landsbyggðinni og styrkir þar byggð. Þar tek ég undir með hv. þm. Drífu Hjartardóttur þó að við séum ekki alltaf alveg sammála um alla hluti.