131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Svartfugl við Norðurland.

463. mál
[15:20]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum þessar ágætu umræður og þær ábendingar og hugleiðingar sem komu fram í máli þeirra. Ég bendi líka á að grein Ólafs Nielsens og Ólafs Einarssonar í Náttúrufræðingnum sem birtist á síðasta ári er mjög athyglisverð. Þar er auðvitað farið mjög vandlega ofan í þessi mál og með leyfi hæstv. forseta langar mig til að vitna í greinina. Þar er spurt:

„Hvað olli fæðuskortinum? Var lítið um æti eða voru skilyrðin þannig að fuglinn náði ekki í æti?

Samkvæmt því sem sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar tjá okkur var nóg af æti, bæði loðnu og krabbaátu, sumarið 2001 og veturinn 2001–2002. Samkvæmt þessu er ólíklegt að beinlínis hafi verið um skort á æti að ræða. Líklegri skýring er að einhver ytri skilyrði hafi verið fuglinum óhagstæð og torveldað svo veiði að hungur og kröm fylgdi í kjölfarið og reið þúsundum þeirra að fullu. Við vitum ekki hvaða þættir þetta voru. Hér gætu hafa spilað saman áhrif storma á hafísrek sem hafi þá annaðhvort hamlað fæðunámi fuglanna eða haft áhrif á dreifingu loðnutorfanna eða krabbaátu flekkjanna. Við vitum ekki heldur hvort þessir atburðir áttu sér einhvern aðdraganda. Voru skilyrðin óhagstæð vikum og mánuðum saman eftir að svartfuglarnir voru komnir á vetrarstöðvarnar þannig að fuglinn var smám saman að veikjast eða gerðist það mjög snögglega að tók fyrir aðgang að æti?“

Þetta eru flókin mál og það er full ástæða til að vakta strendur landsins og skoða þessi mál með kerfisbundnum hætti. Þess vegna hef ég beðið um tillögur frá Náttúrufræðistofnun eins og ég sagði frá í upphafi máls míns.