131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kosningarnar í Írak.

[10:37]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka upp mál þetta sem er eitt það merkasta sem gerst hefur í heimsmálum á undanförnum árum eða jafnvel áratugum. Vegna þeirrar beinu spurningar sem hv. þingmaður nefndi í máli sínu hafa, eftir því sem ég best veit, þegar verið veittir fjármunir til ákveðinna verkefna sem tengjast málefnum barna og kvenna í Írak. Ég tel þó að við höfum aflögu fjármuni til að verja í þessu skyni, ég tel sjálfsagt að við gerum það og tel ráðlegt að við höfum um það efni samráð við utanríkismálanefnd.

Ég vil einnig ítreka það sem kom fram í inngangi hv. þingmanns að það liggur fyrir að hefði ekki hervaldi verið beitt í Írak væri Saddam Hussein enn við völd og írakska þjóðin væri enn í greipum böðla hans. Ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna væru áfram að engu hafðar og trúverðugleiki samtakanna væri eftir því. Þá væri ekki búið að halda kosningar í þessu hrjáða landi, frjálsar kosningar sem marka tímamót eins og þingmaðurinn nefndi, ekki bara í sögu þessa lands heldur og í sögu þessa heimshluta og reyndar heimsins alls. Í þessum heimshluta hafa mannréttindi og lýðræði, eins og allir vita, mjög átt undir högg að sækja. Írökum hefur aldrei áður gefist tækifæri til að ganga frjálsir að kjörborði. Þeir gerðu það að vísu undir stórkostlegum hótunum um ofbeldi og jafnvel morðárásir eins og menn þekkja. Þeim var beint gegn frambjóðendum, þeim var beint gegn kjósendum til að eyðileggja þessar fyrstu kosningar.

Þrátt fyrir alla þá erfiðleika og hinar miklu fórnir Íraka var hvergi hvikað frá undirbúningi að tímasetningu kosninganna. Sem betur fer að mínu viti var ekki farið að ráðum margra úrtölumanna á Vesturlöndum sem vildu fresta kosningunum og fá þannig hryðjuverkamönnunum úrslitaákvörðunarvald um það hvenær kosningarnar færu fram, eða reyndar í þeirra huga færu ekki fram. Kosningarnar tókust eins og hv. þingmaður sagði afar vel þvert á allar hrakspár og voru alvarlegt áfall fyrir hryðjuverkaöflin og aðra óvini lýðræðisins í Írak.

Um 15 millj. karla og kvenna skráðu sig á kjörskrá og 58% gengu að kjörborðinu. Miðað við aðstæður í Írak og þá kjörsókn sem þekkist í sumum traustum lýðræðisríkjum eru þetta auðvitað stórkostleg og merkileg tíðindi.

Bent hefur verið á að þátttaka súnníta hafi ekki verið sambærileg við það sem gerðist meðal sjíta og Kúrda en reyndar var kjörsóknin í héruðum þar sem súnnítar eru í meiri hluta mjög misjöfn. Hún var t.d. 29% í einu kjördæmi en einungis 2% í öðru. Það ætti engum að koma á óvart ef horft er til þess að hótanir og ógnanir um ofbeldi beindust einkum að súnnítum en jafnframt verður að hafa í huga að súnnítar eru eingöngu fimmtungur, 20%, íröksku þjóðarinnar. Þótt hryðjuverkamenn hafi tapað af því að þeim mistókst að hræða meiri hluta kjósenda frá því að kjósa er ljóst að áfram þarf að berjast í Írak, berjast fyrir lýðræðið og verja það með oddi og egg. Lyktir þeirrar baráttu skipta sköpum fyrir Írak, fyrir möguleika frelsisins og lýðræðisins annars staðar í Miðausturlöndum og um heiminn allan.

Góður árangur í Afganistan vekur bjartsýni um framhaldið í Írak. Fyrir rúmum þremur árum var Afganistan undir ógnarstjórn talibana en er nú á leið til lýðræðis og friðar, land sem áður var eingöngu þekkt fyrir óstjórn, ógnarstjórn og ofbeldi. Íslendingar hafa eins og kunnugt er lagt töluvert af mörkum til frelsunar afgönsku þjóðarinnar með mannskap á vegum íslensku friðargæslunnar. Áfram verður haldið þátttöku okkar í friðargæslu og uppbyggingarstarfi í landinu.

Írakska þjóðin eygir nú von um að mega njóta frelsis og lýðræðis. Sú von rætist þó ekki nema Írakar njóti áfram stuðnings alþjóðlega herliðsins sem er í landinu og aðstoðar utan frá við þjálfun eigin öryggissveita. Á þessu ári á eftir að semja stjórnarskrá, bera hana undir þjóðaratkvæði og halda þingkosningar. Það verður því miður að ætla að einræðisseggir og hryðjuverkamenn vilji áfram frelsi veikt í Írak og geri allt til að stuðla að dauða þess.

Alþjóðlega herliðið í Írak, höfum það í huga, er þar nú með fulltingi Sameinuðu þjóðanna. Hið sama á við um þjálfun írakskra öryggissveita á vegum Atlantshafsbandalagsins. Þar leggur Ísland af mörkum með því að kosta flutning á búnaði fyrir öryggissveitir til Íraks, þar á meðal á vopnum og skotfærum sem Slóvenía hefur gefið. Íslensk stjórnvöld hafa einnig ákveðið að leggja rúmar 12 millj. kr. í sjóð sem greiðir ferðir og uppihald manna úr írökskum öryggissveitum vegna þjálfunar utan lands. Loks hefur verið ákveðið að leggja til íslenskan upplýsingafulltrúa hjá þjálfunarsveitum NATO í Írak. Hann hefur þegar verið ráðinn og heldur þangað innan skamms.

Andspyrna gegn alþjóðlega herliðinu í Írak hefur aldrei verið almenn, heldur einskorðast aðallega við svokallaðan súnníþríhyrning í Bagdad og nágrenni og er þar einkum um fylgismenn Saddams Husseins að ræða og aðra hryðjuverkamenn sem koma erlendis frá. Því miður bendir flest til þess að hryðjuverk haldi áfram í landinu en eftir kosningar — og það er aðalatriðið — má öllum vera ljóst að áframhaldandi hryðjuverk hafa ekkert með alþjóðlega herliðið að gera, heldur er þeim beint gegn frelsisvonum fólksins í landinu. Hryðjuverkin í Írak eru því glæpur gegn fólkinu í landinu og glæpur gegn lýðræði í heiminum.