131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Breyting á IX. viðauka við EES-samninginn.

434. mál
[11:04]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 38/2004 og 103/2004, um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn, og fella inn í samninginn annars vegar tilskipun nr. 2003/6/EB, um innherjasvik og markaðsmisnotkun, og hins vegar reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 2273/2003 og tilskipanir 2003/124/EB og 2003/125/EB um óhlutdrægna kynningu og birtingu upplýsinga um hagsmunaárekstra. Gerð er grein fyrir efni ákvarðananna í tillögunni og eru þær prentaðar sem fylgiskjöl með henni ásamt þeim gerðum sem hér um ræðir.

Tilskipun 2003/6/EB miðar að því að samræma reglur er lúta að innri markaði á sviði fjármála í Evrópu og styrkja tiltrú fjárfesta á verðbréfamörkuðum, m.a. með því að mæla fyrir um bann við innherjasvikum og markaðsmisnotkun. Í reglugerð 2273/2003 og tilskipunum 2003/124/EB og 2003/125/EB er að finna nánari útfærslu á ákvæðum hennar.

Hæstv. viðskiptaráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi sem innleiðir gerðina að hluta og er hún til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd. Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði þessari tillögu vísað til hv. utanríkismálanefndar.