131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Breyting á IX. viðauka við EES-samninginn.

434. mál
[11:05]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf):

Herra forseti. Það er með þessa tilskipun ESB að okkur er gert að yfirtaka hana samkvæmt EES-samningi. Í fljótu bragði við fyrri umr. máls virkar hún talsvert óljós. Gangur mála hefur auðvitað verið sá að utanríkismálanefnd hefur fengið þær til umfjöllunar, kafað ofan í þær og síðan hefur gjarnan fylgt í kjölfarið lagasetning um svipað mál.

Hæstv. utanríkisráðherra nefndi í framsöguræðu sinni að hæstv. viðskiptaráðherra, og þingið raunar, væri með mál til umfjöllunar sem þessari þingsályktunartillögu tengdist en mig langaði til að spyrja hvort hæstv. utanríkisráðherra gæti með örfáum orðum gert þinginu grein fyrir því hvaða aðrar praktískar breytingar þetta hefði í för með sér fyrir íslenskan fjármálamarkað, hvort það væri eitthvað sem máli skipti og gerði það að verkum að íslenskt atvinnulíf og hinn íslenski fjármálamarkaður þyrfti að gera stórar breytingar á verklagi sínu sem verið hefur.