131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Breyting á IX. viðauka við EES-samninginn.

434. mál
[11:06]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Ég tel að hér sé ekki um veigamiklar breytingar að ræða sem muni hafa nein stórbrotin áhrif á það umhverfi sem viðskiptalíf okkar býr við. Hins vegar er um samræmdar reglur að ræða sem eðlilegt er að menn taki upp og búi þá við samhæfðar reglur sem snúa að þessum þáttum viðskiptalífsins. Ég held reyndar að flestir sem fylgjast með og hafa verið að fylgjast með á undanförnum árum átti sig á því að þörf er á því að styrkja trú manna á verðbréfamörkuðum og því að þar séu leikreglur skýrar og klárar, þar séu innherjasvik hættuminni en verið hefur og að markaðsmisnotkun geti ekki átt sér stað.

Auðvitað er það aldrei svo að menn hnýti á þessum vettvangi Evrópu eða heimsins alls þá hnúta eða skapi þau skilyrði að hætta á slíkri misnotkun hverfi. Það er auðvitað ekki svo en samræmdar gegnsæjar reglur sem þeir viðskiptaaðilar sem eiga viðskipti yfir landamæri geti gengið að og búið við eru að mínu mati nauðsynlegar.