131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Breyting á XVIII. viðauka við EES-samninginn.

435. mál
[11:10]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hér er verið að innleiða reglur um ýmislegt sem snýr að launþegum, vinnutíma og vinnutímafyrirkomulag, vaktafyrirkomulag, frítíma og önnur ýmisleg félagsleg réttindi. Neðarlega á bls. 3 segir, með leyfi forseta:

„Efni tilskipunarinnar hefur verið innleitt í íslensk lög að því er varðar flestar starfsgreinar með lögum nr. 68/2003, um breytingu á lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum ... Innleiðing tilskipunar þessarar krefst lagabreytinga að því er varðar reglur um vinnutíma þeirra stétta er falla ekki undir vinnutímareglur laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og aðrar reglur gilda ekki um. Þó kemur einnig til greina að innleiða efni hennar með kjarasamningum samtaka aðila vinnumarkaðarins.“

Nú þykist ég vita að um þetta hafi verið þó nokkuð fjallað á undanförnum árum en það er aðallega út af þessum lið sem mig langar að spyrja hvaða efni það helst væri sem menn teldu koma til greina að leysa með kjarasamningum sem ekki hefur enn þá náðst samkomulag um. Ef hæstv. utanríkisráðherra hefur upplýsingar um það væri það gott en auðvitað verður fjallað um þetta mál nánar síðar. Það kemur þá kannski betur fram.