131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Breyting á IX. viðauka við EES-samninginn.

437. mál
[11:14]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 73/2004, um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn, og fella inn í samninginn tilskipun nr. 2003/71/EB, um útboðs- og skráningarlýsingu, sem birta skal við almennt útboð verðbréfa eða þegar þau eru tekin til skráningar.

Gerð er grein fyrir efni ákvörðunarinnar í tillögunni og er hún prentuð sem fylgiskjal með henni ásamt þeirri tilskipun sem hér um ræðir. Tilskipunin kveður á um þær lágmarksupplýsingar sem fram þurfa að koma þegar fjármálagerningar eru boðnir í almennu útboði eða skráðir í kauphöll. Munu fjárfestar hafa aðgang að samhæfðum og samræmdum upplýsingum sem þeir eiga að geta treyst á. Tilskipuninni er ætlað að tryggja vernd fjárfesta, virkni fjármálamarkaðarins í Evrópu og gagnsæi. Hæstv. viðskiptaráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi sem innleiðir tilskipunina að hluta og er það nú til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði þessari tillögu vísað til hv. utanríkismálanefndar.