131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kjarasamningar opinberra starfsmanna.

51. mál
[11:37]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Það er svo skemmtilegt, herra forseti, að þetta er í rauninni í beinu framhaldi af því sem við ræddum áðan og fjallar um eignarrétt og leyfi manna til að ráðstafa eigum sínum.

Að mati flutningsmanns brýtur þetta mál stjórnarskrána á tvennan hátt. Í fyrsta lagi er það í andstöðu við 74. gr. stjórnarskrárinnar sem segir að menn eigi rétt á að taka þátt í félögum, en ekki sé hægt að skylda menn til þátttöku í félögum. Það er enn fremur í andstöðu við 40. gr. stjórnarskrárinnar sem segir að engan skatt megi á leggja nema með lögum og er í andstöðu við 77. gr. sem segir að ekki megi fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann, og tengist að sjálfsögðu eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Í 2. mgr. 7. gr. laganna, sem lagt er til að felld verði brott, segir, með leyfi herra forseta:

„Starfsmaður, sem lög þessi taka til og eigi er innan stéttarfélags samkvæmt lögum þessum, greiði til þess stéttarfélags, sem hann ætti að tilheyra, gjald jafnt því sem honum bæri að greiða væri hann í því, enda fari um laun hans og önnur starfskjör samkvæmt samningum þess samkvæmt nánari ákvörðun fjármálaráðherra eða sveitarstjórnar. Þá ákvörðun skal tilkynna viðkomandi sveitarfélagi.“

Þarna er merkilegt ákvæði sem segir að menn skuli greiða í stéttarfélag fullt gjald hvort sem þeir eru félagar í stéttarfélaginu eða ekki. Það er dálítið undarlegt því í rauninni væri heimskulegt af fólki í þessari stöðu að ganga ekki í félagið og njóta allra þeirra réttinda sem það veitir þar sem það þarf að greiða í félagið hvort sem er. Þetta er þess vegna dulbúin skylda til aðildar að stéttarfélagi.

Nú er það tryggt í stjórnarskránni að menn eiga ekki að þurfa að ganga í félög og þess vegna er talið að þetta brjóti það ákvæði stjórnarskrárinnar.

Síðan er ákvæðið, að mati flutningsmanns, líka talið brjóta gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar um að skatta skuli leggja á með lögum og að ekki skuli fela stjórnvöldum, hvað þá einkaaðilum, ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann. Það er nefnilega svo, herra forseti, að félagsfundur í stéttarfélagi getur samþykkt hvaða félagsgjald sem er, án hámarks. Það getur t.d. ákveðið að hafa félagsgjaldið 100% af launum og launaskrifstofa ríkisins yrði að innheimta það gjald samkvæmt þessum lögum. Þá er ég hræddur um að einhvers staðar mundi hvína í fólki.

Þetta gjald, sem samkvæmt lögum er hægt að leggja á fólk og launaskrifstofan skal innheimta samkvæmt þessu ákvæði, rennur til aðila sem er ekki einu sinni opinber aðili, stéttarfélagsins, einhvers hóps fólks, sem viðkomandi þarf ekki að vera félagsmaður í og kemur þar af leiðandi ekki að ákvörðun um gjaldið sem honum ber þó að greiða. Þetta gjald hefur sem sagt öll einkenni skatts og ætti náttúrlega að afnema þetta ákvæði sem allra fyrst.

Ég ætla ekki að fara nánar ofan í greinargerð með frumvarpinu, hún hefur verið lesin í tvígang áður, og þessu frumvarpi hefur verið vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Þar var samþykkt að leita eftir lögfræðilegri umsögn en vegna umfangs málsins — það var hreinlega of dýrt — var ekki unnt að fá um það lögfræðilegt álit og er það mjög miður því það er mjög mikið mál ef stjórnarskráin er brotin, hvað þá ef hún er brotin á tvennan hátt.

Menn hafa haldið því fram að félagsgjaldið sé þjónustugjald og það má til sanns vegar færa að stéttarfélög gegni ákveðnu hlutverki, t.d. að semja um kaup og kjör. En eftir að aðlögunarsamningar opinberra starfsmanna voru teknir upp þarf hver opinber starfsmaður í rauninni að semja um laun sín sjálfur þannig að þau rök eru fallin brott nema stéttarfélögin semji um ákveðið lágmark. Menn þurfa svo að semja um restina sjálfir. Margt af því sem stéttarfélögin veita er háð því að menn séu félagar, t.d. eins og orlofsheimili og annað slíkt sem sá sem ekki er í félaginu og vill ekki ganga í félagið nýtur ekki. Það má því segja það að njóti ósköp lítils af því sem stéttarfélagið er að véla um. Það er því mjög vafasamt að telja félagsgjaldið þjónustugjald, a.m.k. allt félagsgjaldið, þar sem það rennur í margs konar aðra starfsemi sem maðurinn ekki nýtur.

Það má ræða um hvað sé skattur og þyrfti náttúrlega að ræða það. Hugtakið skattur er jafnan skilgreint sem lögþvinguð greiðsla á gjaldi til opinberra aðila án þess að á móti komi sérgreint endurgjald. Andstætt skatti eru alls konar þjónustugjöld sem eru lögþvinguð gjöld sem greidd eru fyrir ákveðna þjónustu og eiga að standa undir henni svona að jafnaði.

77. gr. stjórnarskrárinnar hljóðar svo:

„Skattamálum skal skipað með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.“

Þetta ákvæði var sett inn 1995 með stjórnarskrárbreytingu og eftir það hafa menn þurft að breyta ýmsum lögum þar sem ráðherra hafði áður heimildir til að hækka t.d. skatta miðað við verðlag. Þess vegna liggja fyrir Alþingi á hverju hausti frumvörp um breytingar á alls konar gjöldum, þjónustugjöldum og öðru, vegna þessa ákvæðis að Alþingi verður að ákveða hvaða skatta skuli greiða.

Þegar rætt er um þetta félagsgjald til stéttarfélaga opinberra starfsmanna — og ég sé núna að formaður BSRB, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, er mættur í salinn og þetta er mál sem snertir hann vissulega þar sem þetta er skattur hans á alla opinbera starfsmenn. (ÖJ: Ég er búinn að biðja um orðið.) Gott.

Þá vil ég gjarnan nefna önnur dæmi sem líka eru töluvert vafasöm og þar er fyrst að nefna búnaðargjald sem lagt er á alla bændur og rennur til Bændasamtaka Íslands sem ekki er opinber aðili. Gjaldið er reyndar ákveðið með lögum en það rennur ekki til ríkisins eða sveitarfélaga, það rennur ekki til opinberra aðila. Þar af leiðandi er mjög vafasamt að það gjald fái staðist ákvæði stjórnarskrárinnar um að ekki megi leggja á skatta nema með lögum, og skattur á þá væntanlega renna til opinbers aðila.

Sóknargjald er samkvæmt lögum nr. 91/1987 nefskattur sem hækkar eins og laun og rennur til trúfélags viðkomandi en ella til Háskóla Íslands ef viðkomandi er ekki í neinu trúfélagi. Og það er mikil spurning: Hvað fær sá trúlausi fyrir þetta gjald ef þetta á að vera þjónustugjald? Hann fær í rauninni ekki neitt nema hann stundi nám við Háskóla Íslands. Þetta er því ekki þjónustugjald og þar af leiðandi er þetta skattur og skatturinn má ekki renna til annars en opinbers aðila og trúfélög eru ekki opinberir aðilar.

Svo er það sem er kannski athyglisverðast og menn ættu virkilega að skoða, það er stefgjaldið, herra forseti, og þau gjöld sem lögð hafa verið á tölvur og tölvudiska og alveg með ólíkindum að menn skuli ekki sjá í gegnum það. Þannig er í dag að lagt er gjald á óskrifaða diska og tölvur með þeim rökstuðningi að verið sé að borga höfundarrétt að tónverkum, kvikmyndum og öðru slíku og því gjaldi dreift út til höfunda slíkra verka. En það merkilega er, herra forseti, að þeir sem eiga mestan höfundarrétt sem tengist tölvum og slíku eru forritarar, það eru hugbúnaðargerðarmenn og kerfisfræðingar. Þeir fá ekki neitt. Þeir fá ekkert af því gjaldi, sem kom fram í blöðum um daginn að væri langt yfir 100 milljónir, sem er innheimt af tölvum og er dreift til sérstaks hóps höfunda, ekki til þeirra höfunda sem mest hafa lagt til málanna. Það rennur heldur ekki til ljósmyndara sem eiga mikið af myndum á t.d. netinu og margir einstaklingar eiga myndir á netinu og eru með höfundarrétt að þeim myndum. Þetta gjald sem á að renna til höfunda, stefgjaldið, rennur ekki til myndasmiða. Ég held að menn ættu að skoða þetta gjald sérstaklega, fyrir nú utan það að gjaldið er innheimt af opinberum aðilum, tolli og skatti, en rennur til einkaaðila, einstaklinga og félaga þeirra. Ég held því að þetta gjald, stefgjaldið, brjóti stjórnarskrána í nokkuð mörgum atriðum. Auk þess sem það brýtur jafnræðisregluna brýtur það félagaákvæðið, frelsi til að vera í félögum, menn fá þetta gjald ekki nema þeir séu í ákveðnum félögum. Svo brýtur það að sjálfsögðu ákvæði stjórnarskrárinnar um hvernig megi leggja á skatt.

Síðan er það afnotagjaldið til RÚV sem hér hefur verið mikið til umræðu. Það er skattur sem allir þeir eiga að borga sem eiga slíkt tæki þó að þeir noti það ekki til að horfa á RÚV. Segjum að einhver unglingur vilji eiga sjónvarpstæki til að horfa á Skjá 1, sem er ókeypis, þá skal hann borga gjald til samkeppnisaðila Skjás 1, sem er RÚV. Þetta er náttúrlega atriði sem brýtur stjórnarskrána að mörgu leyti og alveg sérstaklega það að þetta er í rauninni skattur en rennur ekki til opinbers aðila heldur til RÚV, sem er fyrirtæki eða stofnun í eigu opinbers aðila, fyrir utan hvernig reglurnar um innheimtu þess gjalds brjóta nú allt að því mannréttindi þegar það er skoðað ofan í kjölinn.

Í greinargerðinni er iðnaðarmálagjald nefnt, sem rennur til Félags íslenskra iðnrekenda eða Samtaka iðnaðarins, og er lagt á öll iðnfyrirtæki í landinu og er skyldugreiðsla til stéttarfélags, það er nákvæmlega það sama. Menn borga til Samtaka iðnaðarins hvort sem þeir vilja vera félagar í þeim eða ekki og þetta er skattur sem rennur til annarra aðila en opinberra aðila.

Einnig má ræða um iðgjald í lífeyrissjóð sem er vissulega þjónustugjald að vissum hluta en t.d. karlmenn, ókvæntir og barnlausir eru látnir greiða of hátt iðgjald í lífeyrissjóðina vegna þess að þeir standa undir barna- og makalífeyri og dýrari ellilífeyri kvenna. Þeir borga því allt of hátt iðgjald í lífeyrissjóðinn. Þetta er því ekki þjónustugjald, þetta er jafnaðargjald sem má þá líkja við skatt.

Svo er mjög skrýtið fyrirbæri sem heitir Fiskræktarsjóður. Sá skattur er falinn í lögum um lax- og silungsveiðar, nr. 76/1970. Þar segir að greiða skuli 3‰ af óskírum tekjum vatnsaflsstöðva í landinu sem selja orku til almennings eða stórnotenda, til Fiskræktarsjóðs sem ætlaður er til stuðnings fiskrækt og fiskeldi í landinu. Þarna gildir það að lagður er skattur á stórfyrirtæki, vatnsaflsstöðvar, sem eru oft með gífurlegar tekjur, og þessi skattur rennur til fiskræktarfélaga sem eru einstaklingsfélög. Ég held því að hið háa Alþingi þurfi — af því að hv. þingmenn hafa svarið eið að stjórnarskránni, þá ættu þeir að fara að skoða hvort þessi gjöld öll standist þá stjórnarskrá sem þeir hafa svarið eið að.

Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri, herra forseti, þar sem þetta mál hefur nú verið lagt fram tvisvar áður og umræða um það liggur fyrir í þingskjölum.